Erlent

Tyrkir segjast hafa gripið tugi stjórnarandstæðinga erlendis

Kjartan Kjartansson skrifar
Talsmaður Erdogan Tyrklandsforseta segir að ætlunin sé að taka enn fleiri grunaða stjórnarandstæðinga höndum erlendis.
Talsmaður Erdogan Tyrklandsforseta segir að ætlunin sé að taka enn fleiri grunaða stjórnarandstæðinga höndum erlendis. Vísir/AFP
Útsendarar tyrkneskra stjórnvalda hafa tekið áttatíu Tyrki sem þau gruna um aðild að valdaránstilraun árið 2016 höndum í átján erlendum ríkjum og flutt þá til Tyrklands. Bekir Bozdag, aðstoðarforsætisráðherra Tyrklands, fullyrti þetta í sjónvarpsviðtali í gær.

Þúsundir manna hafa verið handtekin og ákærðir fyrir stuðning við hryðjuverk í kjölfar valdaránstilraunarinnar sem stjórn Receps Erdogan kennir klerknum Fethullah Gulen um. Tugir þúsunda til viðbóta hafa verið hraktir úr störfum fyrir meinta óhollustu við stjórnvöld og herinn.

Bozdag sagði ekki hvernig handtökurnar á erlendri grundu hefðu farið fram eða hvar þær hefðu farið fram. Þó hefur komið fram opinberlega að Tyrkir óskuðu eftir framsali einstaklinga í Kosóvó, Búlgaríu og Malasíu, að því er segir í frétt New York Times. Þá hafa verið óstaðfestar fréttir af handtökum í Afganistan, Pakistan og Súdan.

Hyggja á frekari handtökur

Fullyrti Bozdag að allir einstaklingarnir áttatíu hefðu haft tengsl við Gulen. Talsmaður Erdogan forseta sagði allar handtökurnar og framsöl hafa farið fram löglega. Þá stæði til að handsama fleiri.

Gulen hefur neitað allri aðild að valdaránstilrauninni. Hann er búsettur í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Tyrkir hafa krafist framsals hans og kalla hann hryðjuverkamann.

Fyrir og eftir valdaránstilraunina hefur Erdogan seilst meir og meir í átt að valdboðsstefnu. Þannig fékk Erdogan völd sín stóraukin í umdeildri þjóðaratkvæðagreiðslu sem fór fram í fyrra. Samþykkt var að legga af þingræði sem stjórnskipun ríkisins og taka í staðinn upp forsetaræði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×