Fótbolti

Gylfi á leið til London að hitta sérfræðing: „Framfarir á hverjum degi“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Allir Íslendingar vonast til þess að Gylfi verði klár sem fyrst enda styttist í HM.
Allir Íslendingar vonast til þess að Gylfi verði klár sem fyrst enda styttist í HM. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton og íslenska landsliðsins, vonast til þess að hann hristi af sér meiðslin sem fyrst og komi sterkari og hraustari en aldrei fyrr.

Gylfi, sem meiddist í leik Everton og Brighton, verður að öllum líkindum frá í sex til átta vikur. Talið er þó að hann verði klár þegar Ísland leikur á HM í Rússlandi í sumar en Gylfi var í viðtali á heimasíðu Everton í dag.

„Þetta gengur vel og stöðugt að ná framförum á hverjum degi. Það hefur ekki komið neitt áfall. Ég er búinn að losna við hækjurnar og spelkuna og geng nánast venjulega,” sagði Gylfi. „Ég er að gera fullt af æfingum með sjúkraþjálfaranum. Svo er ég einnig að vinna í sundlauginni og ræktinni.”

„Sjúkraliðið hefur verið frábært og haldið mér við efnið á síðustu vikum. Þeir vilja fá mig fljótt inn. Þeir eru mjög góðir og ekki bara sem sjúkraþjálfarar, þú þarft að njóta þess að vinna með fólkinu sem er í kringum þig."

„Þetta gerir vinnuna í salnum auðveldari. Ég fer til London á þriðjudaginn að hitta sérfræðing og hann mun endurmeta stöðuna."

Gylfi segir að svona meiðsli þarfnist þolinmæði og að þetta sé hluti af leiknum. Hann ætlar sér að koma hraustari sem aldrei fyrr til baka en Gylfi hefur skorað sex mörk í þeim 33 leikjum sem hann hefur spilað fyrir Everton á tímabilinu.

„Þetta er hörð vinna og ekki eins gott og að vera úti á æfingavelli að æfa. Þú getur skilið afhverju það er erfitt fyrir leikmenn sem glíma við langvarandi meiðsli að horfa á strákana fara út á æfingu á hverjum degi. Sem betur fer eru mín ekki langvarandi.”

„Þetta er þó hluti af leiknum. Það ganga allir í gegnum meiðsli og þú verður að komast í gegnum þetta. Ég er ekki mjög þolinmóður ef ég á að vera hreinskilinn. Ég vil klára hluti fljótt en ég veit að þetta tekur tíma og ég verð að vera þolinmóður.”

„Líkaminn tekur sinn tíma og ég verð að hlusta á hann. Ég hef verið mjög heppinn með meiðsli á mínum ferli og vonandi mun ég koma sterkari og hraustari sem aldrei fyrr til baka,” sagði þessi frábæri leikmaður að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×