Enski boltinn

Raheem Sterling kallar eftir smá ást frá ensku þjóðinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Raheem Sterling vill meiri jákvæðni fyrir HM.
Raheem Sterling vill meiri jákvæðni fyrir HM. vísir/getty
Raheem Sterling, framherji Manchester City og enska landsliðsins í fótbolta, kallar eftir aðeins meiri ást í garð landsliðsins í aðdraganda HM 2018 í Rússlandi.

Enska liðið á eftir þrjá vináttuleiki eftir áður en það fer á HM en Ljónin mæta Ítalíu á Wembley í kvöld eftir að vinna Holland, 1-0, á föstudaginn.

„Mér finnst oft of mikil neikvæðni í garð landsliðsins. Ég myndi elska að heyra eitthvað á jákvæðu nótunum svona rétt til að strákarnir fá að vita að allir styðja við bakið á okkur,“ segir Sterling í viðtali við BBC.

Enska liðið rúllaði yfir sinn riðil í undankeppni HM og mætir Túnis, Panama og Belgíu í riðlakeppninni í Rússlandi. Liðið hefur verið á fínum skriði en oft breytist andrúmsloftið á Englandi þegar á stórmótin er komið.

Sjálfur hefur Sterling upplifað baul úr stúkunni frá stuðningsmönnum enska liðsins sem hann segir ekki gott að ganga í gegnum.

„Ef þú vilt að landinu þínu gangi vel þarftu að tala um það svolítið jákvætt. Það þarf að senda okkur strákana á HM með hreinan huga þannig að við vitum að allir eru með okkur í liði. Ef það gerist lofa ég að þið sjáið betra landslið,“ segir hann.

„Ég held að ef við styðjum okkar stráka og gefum þeim smá ást mun það hjálpa liðinu. Það mun auka sjálfstraust liðsins,“ segir Raheem Sterling.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×