Fótbolti

KSÍ vill fella niður vörumerkjaskráningu á húh-inu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Baráttan um Húh-ið heldur áfram.
Baráttan um Húh-ið heldur áfram. Vísir/Getty
Knattspyrnusamband Íslands hefur blandað sér inn í baráttuna um húh-ið en sambandið sett í dag frétt inn á heimasíðu sína varðandi málið.

Knattspyrnusamband Íslands vill koma í veg fyrir að aðrir en sambandið geti grætt á auðkennismerki víkingaklappsins sem stuðningsfólk íslenska fótboltalandsliðsins hefur gert heimsfrægt.

Ógleymanleg stund strákanna okkar og íslenska stuðningsfólksins eftir leikina á EM í Frakklandi 2016 stal senunni á mótið fyrir tæpum tveimur árum.

Víkingaklappið er orðinn fastagestur á leikvöngum margra liða úti í heimi og þar á meðal eru stuðningsmenn Minnesota Vikings í NFL-deildinni sem voru fljótir að stökkva á vagninn.

Í fréttinni á heimasíðu KSÍ kemur fram að Knattspyrnusamband Íslands sendi nýlega inn beiðni um stjórnsýslulega niðurfellingu á vörumerkjaskráningu Húh! Með þessu er ætlun KSÍ að koma í veg fyrir að utanaðkomandi aðilar geti hagnast á auðkenni landsliða Íslands

Beiðni KSÍ er tvíþætt, í fyrsta lagi að fyrrnefnd skráning verði felld úr gildi þar sem merkið hafi ekki að bera nægileg sérkenni til að auðkenna vörur eða þjónustu eins aðila frá öðrum sem er skilyrði þess að hægt sé að skrá vörumerki.

Telji skráningaryfirvöld hins vegar að orðið húh sé skráningarhæft, þá fer KSÍ til vara fram á að sambandið eigi meiri rétt á þeirri skráningu á grundvelli notkunar.

Knattspyrnusambandið er á engan hátt aðili að deilum aðila í tengslum við viðkomandi vörumerkjaskráningu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.