Erlent

Segir litlar líkur á að Skripal-feðginin lifi af

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi í Salisbury fyrr í mánuðinum.
Frá vettvangi í Salisbury fyrr í mánuðinum. vísir/epa
Viktoria Skripal, frænka þeirra Sergei og Yuliu Skripal, segir litlar líkur á að feðginin lifi af en þau urðu fyrir taugaeitursárás í enska bænum Salisbury fyrr í mánuðinum. Viktoria segir batahorfurnar ekki góðar.

„Af 99 prósent er von mín kannski eitt prósent. Hvað sem eitrið var þá eru lífslíkur þeirra litlar og þau munu verða örkumla svo lengi sem þau lifa,“ sagði Viktoria í samtali við BBC en fjallað er um málið á vef Guardian.

 

Hún greindi jafnframt frá því að móður Sergei Skripal hefði ekki verið sagt frá málinu. Þau hafi viljað vernda hana og því passað að hún myndi hvorki heyra né sjá neitt um málið.

Eins og greint hefur verið frá hafa um tuttugu ríki vísað rússneskum erindrekum úr landi vegna gruns um að rússnesk yfirvöld standi á bak við árásina á Skripal-feðginin. Eitrið sem notað var í árásinni má rekja til Rússa að sögn breskra yfirvalda. Yfirvöld í Rússlandi þvertaka fyrir að hafa haft eitthvað með árásina að gera.

Hefur yfir 100 erindrekum verið vísað frá vestrænum ríkjum en Rússar hafa heitið því að svara aðgerðunum af fullri hörku. Íslendingar taka þátt í þessum aðgerðum vestrænna ríkja gegn Rússum með því að hætta öllum tvíhliða samskiptum við Rússa auk þess sem ráðamenn héðan munu ekki mæta á heimsmeistaramótið í Rússlandi sem fram fer í sumar.


Tengdar fréttir

BNA kúgi bandamenn sína til að reka Rússa á dyr

Rússar eru óhressir með að rúmlega hundrað erindrekar þurfi að snúa aftur til síns heima. Lavrov segir Bandaríkjamenn hafa þvingað bandamenn sína til þess að vísa Rússum úr landi en þessir sömu bandamenn séu hins vegar að biðja Rússa afsökunar í laumi. Fjölmiðlar Rússa taka undir með yfirvöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×