Erlent

Vilja reka rússneska njósnara úr landi en finna enga

Samúel Karl Ólason skrifar
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands. Vísir/Getty
Yfirvöld Nýja Sjálands vilja taka þátt í þeim samræmdu aðgerðum fjölda ríkja sem standa nú yfir gegn Rússlandi, meðal annars vegna taugaeitursárásarinnar á Sergei Skripal í Bretlandi. Gallinn er hins vegar sá að Nýsjálendingar finna enga rússneska njósnara til að vísa úr landi.

„Við höfum leitað að þeim í Nýja Sjálandi en við erum ekki með neina rússneska njósnara sem starfa í pólitísku skjóli sem erindrekar. Ef svo væri myndum við vísa þeim úr landi,“ sagði Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands í útvarpi í morgun þar sem hún mætti upprunalega til að ræða launadeilur hjúkrunarfræðinga í landinu.

Ardern segir það ekki koma sér á óvart að Nýja Sjáland sé ekki ofarlega á lista Rússa þó landið sé eitt af svokölluðum „Five Eyes“ löndum, ásamt Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada og Ástralíu, sem deila upplýsingum sín á milli.

Hér má sjá ummæli forsætisráðherrans. Þau hefjast um 4:40.

Forsvarsmenn minnst tuttugu ríkja hafa tekið þá ákvörðun að vísa rússneskum erindrekum úr landi. Bretar tilkynntu fyrr í mánuðinum að þeir myndu vísa 23 úr landi. Bandaríkin tilkynntu í gær að 60 erindrekum, sem væru í raun njósnarar, yrði vísað þaðan. Lista yfir önnur ríki má sjá hér að neðan.

Frakkland, Þýskaland, Pólland, Kanada: 4

Tékkland, Litháen: 3

Danmörk, Holland, Ítalía, Spánn, Albanía, Ástralía: 2

Eistland, Króatía, Finnland, Ungverjaland, Lettland, Rúmenía, Svíþjóð, Noregur, Makedónía: 1


Tengdar fréttir

Ástralar vísa rússneskum erindrekum úr landi

Ástralía hefur nú bæst í hóp þeirra ríkja sem reka rússneska erindreka úr landi vegna gruns um að Rússar hafi eitrað fyrir Skripal-feðginunum í bænum Salisbury á Englandi á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×