Innlent

Eina sem beið sérsveitarinnar á Ægisíðu var sofandi maður

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá aðgerðum sérsveitarinnar á Ægisíðu í morgun.
Frá aðgerðum sérsveitarinnar á Ægisíðu í morgun. Vísir/Egill
„Þegar á öllu er á botninn hvolft snýst þetta um eina líkamsárás fyrr í nótt,“ segir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, um rannsókn á Ægisíðumálinu svokallaða þar sem sjö hafa verið handteknir. Jóhann Karl segir að kastast hafi í kekki á milli tveggja hópa í nótt.

Einn á að hafa orðið fyrir líkamsárás á Grettisgötu vegna málsins en í Jóhann Karl segir það hafa undið upp á sig. „Og þeir töldu að það væri einhver frelsissvipting í gangi í einhverju húsi og einhver vopn,“ segir Jóhann Karl.

Umrætt hús er á Ægisíðu þar sem aðgerðir lögreglu fóru fram í morgun. Fjöldi sérsveitarmanna mætti á vettvang vopnaðir skotvopnum þar sem tilkynning var tekin alvarlega og viðbúnaður því eftir því. Jóhann Karl segir hins vegar að í húsinu hafi engin vopn verið og enginn frelsissviptur.

Hins vegar hafi þar verið einn karlmaður sem var sofandi.

Jóhann Karl segir mennina marga hverja hafa verið í annarlegu ástandi eftir gleðskap. Sá var leiddur út í járnum af sérsveitarmönnum rétt um klukkan ellefu í morgun. Handtók lögreglan alls fjóra í tengslum við aðgerðirnar á Ægisíðu. Hún fór síðan á Grettisgötu þar sem þrír til viðbótar voru handteknir um hádegisbil í dag, þar á meðal sá sem á að bera ábyrgð á líkamsárásinni.

„Þannig að eftir stendur í þessu máli þessi líkamsárás í nótt og fíkniefni sem fundust á flestum þeirra handteknu,“ segir Jóhann Karl en um var að ræða neysluskammta.

Hann segir lögreglu hafa verið tilkynnt um skemmdarverk á bíl á Ægisíðu í morgun þar sem menn áttu að hafa notast við gangstéttarhellu.

Jóhann Karl á von á því að flestum verði sleppt eftir yfirheyrslu í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira
×