Erlent

Þýskar borgir mega banna dísilbíla til að draga úr mengun

Kjartan Kjartansson skrifar
Dísilbílar blása út meira af hættulegum rykögnum en bensínbílar. Þýskar borgir geta nú bannað eldri dísilbíla á götunum þegar mengun er sérlega slæm.
Dísilbílar blása út meira af hættulegum rykögnum en bensínbílar. Þýskar borgir geta nú bannað eldri dísilbíla á götunum þegar mengun er sérlega slæm. Vísir/AFP
Dómstóll í Þýskalandi úrskurðaði í dag að borgir þar megi banna eldri dísilbíla á sumum svæðum til að draga úr loftmengun þar sem hún er mest. Þýska ríkisstjórnin og bílaiðnaðurinn hefur verið andsnúinn slíku banni.

Milljónir eigenda eldri dísilbíla gætu nú þurft að skilja bíla sína eftir heima þegar mengun er sérstaklega slæm. Málið sem dæmt var í dag varðaði bann sem komið var á í Stuttgart og Düsseldorf. Yfirvöld í sambandsríkjum höfðu áfrýjað bönnunum þar.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að styrkur nituroxíðs hafi verið yfir viðmiðum evrópskra reglna í sjötíu þýskum borgum í fyrra. Þýska ríkisstjórnin segir að í flestum þeirra hafi aðeins verið farið lítillega yfir mörkin og aðgerða sé aðeins þörf í nokkrum þeirra. Hún lagði til aðrar leiðir en bönn eins og að bjóða upp á ókeypis almenningssamgöngur þegar mengun er sem verst.

Reyna líklega að samræma reglur fyrir allt landið

Talið er að dómurinn geti jafnvel haft fordæmisgildi í Evrópu. Líklegt er talið að þýsk stjórnvöld bregðist við dómnum með því að semja lög til að samræma heimildir borga til að banna tiltekna bíla fyrir allt landið.

Evrópsk stjórnvöld komu um tíma á hvötum til að fjölga dísilbílum í umferð vegna þess að þeir losa minna af gróðurhúsalofttegundum sem valda hnattrænni hlýnun en bensínbílar. Dísilbílarnir losa hins vegar meira af rykögnum sem valda staðbundinni loftmengun sem er heilsuspillandi.

Framleiðendur dísilbíla hafa átt í vök að verjast eftir að upp komst um svik bílaframleiðandans Volkswagen á útblástursprófum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×