Innlent

Svæðisstjórn virkjuð í Árnessýslu og stefnt að opnun fjöldahjálparstöðvar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þriggja bíla árekstur varð á Hellisheiði í dag en meiðsli á fólki eru ekki alvarleg. Á mynd sjást björgunarsveitarmenn að störfum á heiðinni fyrr í dag.
Þriggja bíla árekstur varð á Hellisheiði í dag en meiðsli á fólki eru ekki alvarleg. Á mynd sjást björgunarsveitarmenn að störfum á heiðinni fyrr í dag. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Svæðisstjórn hefur verið virkjuð í Árnessýslu vegna fjölda ökutækja sem sitja föst á Hellisheiði, Lyngdalsheiði og Mosfellsheiði. Stefnt er að opnun fjöldahjálparstöðvar á Borg í Grímsnesi.

Uppfært klukkan 18:00: Fjöldahjálparstöð hefur verið opnuð á Selfossi en ekki á Borg í Grímsnesi eins og áður kom fram.

Þá varð þriggja bíla árekstur á Hellisheiði í dag en meiðsli á fólki eru ekki alvarleg, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Bifreiðum, sem setið hafa fastar á heiðinni, verður komið í burtu innan skamms.

Sjá einnig:Vegum lokað víða um land vegna veðurs

Eins og greint hefur verið frá í dag er veður afar slæmt um land allt. Lokað hefur verið fyrir umferð um Hellisheiði, Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði, Holtavörðuheiði og Þrengsli vegna veðurs. Allar lokanir á vegum má nálgast á vef vegagerðarinnar.

Bifreiðar sitja fastar í tugatali

Mjög slæmt veður er í uppsveitum Árnessýslu, þar sem svæðisstjórn hefur verið virkjuð, og skiptir fjöldi bifreiða, sem sitja fastar, tugum. Fjölmargar bifreiðar sitja fastar á Lyngdalsheiði, Mosfellsheiði og við Þingvelli. Þá hafa einnig borist tilkynningar um fastar bifreiðar á Laugarvatnsvegi og Biskupstungnabraut. Stefnt er að opnun fjöldahjálparstöðvar á Borg í Grímsnesi.

Lögregla biður ökumenn og íbúa uppsveita Árnessýslu að halda kyrru fyrir og virða lokanir lögreglu og Vegagerðarinnar. Þá verða frekari upplýsingar veittar eftir því sem aðgerðum vindur fram.

Frá Hellisheiði í dag.Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Veður mun fara versnandi þegar líður á daginn, fyrst á Norðurlandi, síðan á Vestfjörðum við Breiðafjörð og í Borgarfirði. Gul viðvörun er í gildi á svæðunum.

Suðaustanlands, einkum frá Vík austur á Skeiðarársand verður mjög hvöss norð-vestanátt fram á kvöld. Appelsínugul viðvörun er í gildi á svæðinu og mun vindur ná 25-28 m/s og nánast ekkert skyggni í glórulausum skafrenningi. Einnig á Breiðamerkursandi undir kvöld og hviður allt að 50 m/s.


Tengdar fréttir

Vegum lokað víða um land vegna veðurs

Veður er afar slæmt á landinu í dag og búist er við ofsaveðri á Suðausturlandi. Búið er að loka fyrir umferð um Hellisheiði, Mosfellsheiði, Holtavörðuheiði og Lyngdalsheiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×