Erlent

Rannsókn Mueller nálgast Bandaríkjaforseta sjálfan

Kjartan Kjartansson skrifar
Skuggi rannsóknar Mueller hefur legið yfir Hvíta húsinu í fleiri mánuði. Trump gæti bráðlega verið kallaður til viðtals.
Skuggi rannsóknar Mueller hefur legið yfir Hvíta húsinu í fleiri mánuði. Trump gæti bráðlega verið kallaður til viðtals. Vísir/AFP
Æðstu yfirmenn dóms-, leyniþjónustu- og lögregluyfirvalda í Bandaríkjunum hafa svarað spurningum Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda, síðustu vikur og mánuði. Rannsóknin virðist í auknum mæli beinast að því hvort að Donald Trump forseti hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar. Mueller er sagður vilja ræða við Trump á næstunni.

Rannsókn Mueller beinist ekki aðeins að því hvort að forsetaframboð Trump hafi átt í samráði við rússnesk stjórnvöld fyrir forsetakosningarnar árið 2016 heldur hvort að Trump hafi reynt að leggja stein í götu rannsóknarinnar og hindra framgang réttvísinnar. Mueller var falið að stjórna rannsókninni eftir að Trump rak James Comey, forstjóra alríkislögreglunnar FBI, í maí.

Comey ræddi við rannsakendur Mueller seint í fyrra og Jeff Sessions, dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Trump, svaraði spurningum þeirra í fleiri klukkustundir í síðustu viku, að því er New York Times sagði frá í gær.

Nú hefur Reuters-fréttastofan greint frá því að Mike Pompeo, forstjóri leyniþjónustunnar CIA, Dan Coats, yfirmaður Leyniþjónustu Bandaríkjanna, og Mike Rogers, yfirmaður Þjóðaröryggisstofnunarinnar (NSA), hafi allir rætt við rannsakendur Mueller í fyrra.

Vildu fá að vita hvort Trump hefði beðið þá um að þrýsta á Comey

Rannsakendurnir spurðu þá fyrst og fremst að því hvort að Trump hefði beðið þá um að þrýsta á Comey í fyrra. Trump var ósáttur við að Comey hefði neitað að lýsa því yfir opinberlega að hann væri ekki sjálfur til rannsóknar vegna meintra tengsla framboðsins við Rússa. Þá hefur Comey lýst því hvernig hann taldi Trump hafa beðið sig um að láta rannsóknina niður falla.

Einnig höfðu rannsakendurnir áhuga á að vita hvort að Trump hefði reynt að binda enda á rannsóknir leyniþjónustustofnananna á afskiptum Rússa af kosningum og samskiptum fulltrúa Trump við fulltrúa rússneskra stjórnvalda.

Leyniþjónustustofnanirnar hafa allar ályktað opinberlega að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar árið 2016 til þess að reyna að tryggja Trump sigur. Trump hefur þverneitað að nokkuð samráð hafi átt sér stað.

Þá var greint frá því í gær að Mueller vilji ræða við Trump í persónu á næstu vikum. Lögmenn Trump vilji hins vegar koma því þannig fyrir að forsetinn fái að svara hluta spurninganna skriflega.

McCabe hefur mátt þolað ítrekaða gagnrýni frá Trump á opinberum vettvangi. Sessions dómsmálaráðherra (í bakgrunni) er sagður hafa þrýst á núverandi forstjóra FBI um að reka McCabe og aðra yfirmenn frá tíð James Comey.Vísir/AFP
Spurði eftirmann Comey hvern hann hefði kosið

Vitnin sem Mueller hefur kallað til og fregnir af spurningunum sem voru bornar undir þau benda til þess að áhersla rannsóknarinnar beinist að því hvort að Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar, ekki síst þegar hann rak Comey. Forsetinn lýsti því í sjónvarpsviðtali að ástæðan hefði verið Rússarannsókn FBI.

Þegar Comey kom fyrir þingnefnd í júní lýsti hann samskiptum sínum við Trump, meðal annars hvernig forsetinn hefði krafið hann um hollustu við sig.

Svo virðist sem að Trump hafi leikið svipaða leik við Andrew McCabe sem tók við sem starfandi forstjóri FBI tímabundið eftir að Comey var rekinn. Washington Post sagði frá því í gær að Trump hefði spurt McCabe að því hvern hann hefði kosið í forsetakosningunum á fundi þeirra á forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu í maí. McCabe er sagður hafa fundist samtalið óþægilegt. Hann svaraði að hann hefði ekki kosið.

Ronna Romney McDaniel, formaður landsnefndar Repúblikanaflokksins, varði Trump í dag og sagði hann aðeins hafa verið að reyna að kynnast McCabe með spurningu sinni um hverjum hann hefði greitt atkvæði sitt í forsetakosningunum.

Þá er forsetinn sagður hafa hellt úr skálum reiði sinnar yfir McCabe, sem þá var aðstoðarforstjóri FBI, vegna pólitískra tengsla eiginkonu hans við bandamenn Hillary Clinton. Eiginkona McCabe bauð sig fram til öldungadeildar ríkisþings Virginíu árið 2015 og hlaut fjárstyrki frá pólitískri aðgerðanefnd sem Terry McAuiliffe, fyrrverandi ríkisstjóri Virginíu, og náinn vinur Clinton-hjónanna stýrði.

Trump hefur ítrekað gagnrýnt McCabe, sem enn er aðstoðarforstjóri FBI, opinberlega undanfarna mánuði, ekki síst vegna meintra tengsla hans við Hillary Clinton. Forsetinn er sannfærður um að Rússarannsóknin sé runnin undan rifjum demókrata sem séu tapsárir vegna sigurs Trump í forsetakosningunum. Engu að síður gerði hann McCabe að starfandi forstjóra FBI þar til Christopher Wray var skipaður varanlega í embætti forstjóra.

Wray er sagður hafa hótað því að segja af sér nýlega vegna þrýstings frá Hvíta húsinu um að reka McCabe og aðra yfirmenn hjá FBI sem voru bandamenn Comey.


Tengdar fréttir

Mueller vill ræða við Trump á næstu vikum

Svo virðist sem að rannsókn bandaríska dómsmálaráðuneytisins beinist nú í auknum mæli að því hvort að Trump forseti hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×