Nýjustu fréttir úr herbúðum Paris Saint Germain herma að Neymar hafi fengið sérstakt loforð frá forseta franska liðsins. Þetta er loforð sem gerir alla í Barcelona brjálaða.
Samkvæmt frétt Goal-síðunnar þá má Neymar fara til Real Madrid ef að hann hjálpar Paris Saint Germain að vinna Meistaradeildina í vor.
Neymar hefur sagt nánum vinum sínum á síðustu vikum að hann dreymi um að spila fyrir Real Madrid
Parísarliðið borgaði Barcelona 222 milljónir evra fyrir Neymar í haust og hann hefur skorað 24 mörk og gefið 16 stoðsendingar í fyrstu 23 leikjum sínum með PSG.

Neymar var á reynslu hjá Real Madrid í 20 daga þegar hann var aðeins þrettán ára gamall og var nálægt því að fara til Real eftir viðræður við Florentino Perez árð 2013.
„Með því að vera í Madrid þá yrði auðveldara fyrir mig að vinna Gullboltann,“ lét Neymar hafa eftir sér í lok síðasta árs.
Samningur Neymar og PSG er til ársins 2022 en það er ekki hægt að kaupa hann upp eins og var með samning hans hjá Barcelona.