Innlent

Nemendur LHÍ telja sig svikna og ætla ekki að borga skólagjöldin

Birgir Olgeirsson skrifar
Húsnæði LHÍ á Sölvhólsgötu.
Húsnæði LHÍ á Sölvhólsgötu. vísir/Anton Brink

Nemendur sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands ætla ekki að greiða skólagjöld á vorönninni 2018. Þetta kemur fram í opnu bréfi sem nemendurnir afhentu stjórn Listaháskólans fyrr í dag en þar segja þeir slæma aðstöðu og síversnandi þjónustu ástæðuna að baki því að þeir ætli ekki að greiða skólagjöldin.

Nemendurnir vilja meina að þessi slæma aðstaða og síversnandi þjónusta við nemendur deildarinnar geri það að verkum að þeir geti ekki sinnt námi sínu eins og lagt var upp með þegar þeir hófu nám við skólann.

Sjá einnig: Rannsaka hvort mygla sé í LHÍ

Telja nemendur stjórnina hafa svikið sig því ekki hafi verið staðið við það sem þeim var lofað.

Segja þeir aðgerðina ekki bara til að hreyfa við stjórnendum skólans heldur einnig til að benda á að algjör forsendubrestur hafi orðið á viðskiptasambandi nemendanna og skólans.

Nemendurnir segja aðstæður hafa versnað samhliða því að skólagjöld hafa hækkað með hverju ári sem líður og þolinmæði þeirra á þrotum.

Þeir ætla því að halda eftir skólagjöldum vegna þessa forsendubrests og mættu ekki í tíma eftir hádegi í mótmælaskyni.

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, tók við bréfinu sem er ætlað stjórn skólans. Fríða segir að margt áhugavert komi fram í bréfinu og hafi stjórnendur skólans reynt í áratug að vekja athygli stjórnvalda á slæmum aðbúnaði við skólann. Hún segir stjórn LHÍ funda á fimmtudag og þá verði tekin ákvörðun um framhaldið.

Hér fyrir neðan má sjá þegar lesið var upp úr bréfinu fyrr í dag


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.