Ekkert verður af fyrsta prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum í 28 ár. Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélagsins þar í bæ kaus í kvöld gegn því að halda prófkjör en tillaga um að stillt yrði upp á lista flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor náði ekki 2/3 atkvæða í desember og var því felld.
Eftir að tillagan um prófkjör var felld var gerð tillaga um að fara leið röðunar, sem Sjálfstæðismenn á Akureyri ætla meðal annars að fara. Var sú tillaga samþykkt með um 75 prósentum atkvæða. Við röðun eru það aðeins aðal- og varamenn í fulltrúaráðinu sem fá að kjósa á milli frambjóðenda. Óbreyttir Sjálfstæðismenn í Eyjum hafa ekki kosningarétt.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum til tólf ára, er ánægður með niðurstöðu fundarins.
„Já, ég var í þeirri stöðu að vera búinn að segja vel fyrir jól að ég myndi gefa kost á mér til að leiða listann, sama hvaða leið er valinn,“ segir Elliði. Hann segir það ekki hafa skipt neinu máli fyrir sig hvaða leið yrði farin í þeim efnum. Prófkjör eða annað.
Í atkvæðagreiðslu um tillögu að prófkjöri í kvöld greiddi hann atkvæði gegn tillögunni.
„Já. Það var leynileg atkvæðagreiðsla en ég hefði ekkert haft á móti prófkjöri og hefði glaður farið í það,“ segir Elliði. Hann segist sjálfur hafa talað fyrir því, eftir að tillagan um prófkjör var felld, að farið yrði í leiðtogaprófkjör.
„En það hafði enginn áhuga á því. Ég var einn um þá skoðun af 54,“ segir Elliði léttur.
Samkvæmt heimildum Vísis var prófkjörstillagan felld með 28 atkvæðum gegn 26.
Ekkert verður af sögulegu prófkjöri í Eyjum

Tengdar fréttir

Sjálfstæðisflokkurinn heldur prófkjör í Vestmannaeyjum í fyrsta skipti síðan 1990
Á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum sem var að klárast rétt í þessu var samþykkt að farin yrði svokölluð prófkjörsleið fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar.

Elliði tilbúinn í fyrsta prófkjör í Eyjum í 28 ár
Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélagsins í Vestmannaeyjum felldi skömmu fyrir áramót tillögu um að stillt yrði upp á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.