Innlent

Reyndi að lenda í þrígang á Akureyri en hélt svo til Keflavíkur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Á myndinni má sjá hvernig flugvélin hringsólaði yfir Akureyri áður en vélinni var flogið til Keflavíkur.
Á myndinni má sjá hvernig flugvélin hringsólaði yfir Akureyri áður en vélinni var flogið til Keflavíkur. Flightradar24.com

Boeing flugvél Enter Air, ENT501, gerði í þrígang tilraun til lendingar á Akureyrarflugvelli síðdegis í dag en án árangurs. Veðurskilyrði virðast hafa komið í veg fyrir að flugstjórinn gat lent vélinni. Tók hann þá ákvörðun að fljúga vélinni suður og lenda á Keflavíkurflugvelli.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við Vísi að Enter Air, sem flýgur með farþega hjá ferðaskrifstofunni Super Break, hafi komið að Eyjafirðinum hátt úr norðri. Vélin hafi lent í einhverjum vandræðum.

Samkvæmt heimildum Vísis snúa að skorti á aðflugsbúnaði þegar vélum er lent úr norðri. Slíkur búnaður kostar um 70 milljónir króna eftir því sem fram kom í frétt RÚV um helgina.

Vélinni var flogið einn hring og gerð önnur tilraun til lendingar.

Þá hafi skyndilega byrjað að snjóa, svo mikið að flugbrautin á Akureyri var ekki lengur sýnileg. Fór vélin einn hring í viðbót áður en þriðja tilraun var áætluð. Hins vegar var skyggni engu skárr og því ákveðið að fljúga suður. Til stendur að fljúga fólkinu norður síðdegis eða í síðasta lagi á morgun.

Um er að ræða beint flug frá Bretlandi en fyrsta ferð Enter Air var flogin á föstudaginn. Þetta var önnur ferð flugfélagsins til Akureyrar. Við þau tímamót var mikið fagnað á Akureyrarflugvelli og boðið var upp á pönnukökur og íslenskt vatn.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.