Innlent

Íslendingar lögðu nýjar línur í konunglegu veislustandi

Atli Ísleifsson og Stefán Ó. Jónsson skrifa
Gestir íslensku veislunnar skemmtu sér konunglega
Gestir íslensku veislunnar skemmtu sér konunglega Vísir/Atli
Íslensku forsetahjónin blésu til heljarinnar veislu á Moderna muséet, nútímalistasafninu á Skreppsholmen í Stokkhólmi, í gærkvöldi. Þangað buðu þau meðal annars sænsku konungshjónunum, ráðamönnum, uppistandaranum Ara Eldjárn, kvenréttindafrömuðum og fótboltaköppum. Myndir úr veislunni má sjá hér að neðan.

Þau Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid hafa verið í opinberri heimsókn í Svíþjóð undanfarna daga og hafa þau meðal annars sótt Karolinska Institutet, vistvæna húsbyggingarfélagið Folkhem og barnahús í Stokkhólmi heim. Forsetinn hefur jafnframt flutt erindi um gildi og samfélagsbreytingar við stjórnmálafræðideild Stokkhólmsháskóla.

Sjá einnig:Lars bað Guðna að skila sérstakri HM kveðju til íslensku þjóðarinnar

Deginum þeir lauk svo með fyrrnefndri móttöku í Moderna museét. Þar fluttu Guðni og Estrid Brekkan, sendiherra Íslands í Svíþjóð, sitthvora ræðuna og mælti forsetinn á íslensku - en hann flutti ræðu á sænsku við hlið Karls Gústafs Svíakonungs á mánudag.

Það var þó uppistandarinn Ari Eldjárn sem stal senunni á listasafninu sem skemmti gestum með sprelli og ærslagangi eins og honum einum er lagið. Óhætt er að segja að Ari hafi vakið mikla lukku og sagði fulltrúi sænsku konungshallarinnar meðal annars að Íslendingar hefðu lagt nýjar línur í svona veislum með því að vera með uppistand. 

Þá voru gestir hæstánægðir með níu rétta matseðil kvöldsins þar sem finna mátti margvíslegar íslenskar kræsingar.

Hér að neðan má sjá myndir sem blaðamaður Vísis tók á listasafninu í gær. Opinberu heimsókn forsetahjónanna lýkur í dag með ferð þeirra til Uppsala. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


×