Innlent

Ungmenni slösuðust á Esjunni vegna flugelda

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Tilkynnt var um flugeldaslys í hlíðum Esjunnar á ellefta tímanum í kvöld. Mynd úr safni.
Tilkynnt var um flugeldaslys í hlíðum Esjunnar á ellefta tímanum í kvöld. Mynd úr safni. Vísir/Vilhelm Gunnarsson
Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning vegna flugeldaslyss í hlíðum Esjunnar á ellefta tímanum í kvöld. Sjúkrabílar voru sendir á staðinn og var Björgunarsveitin Kjölur einnig kölluð á vettvang með sexhjól.

Sigurbjörn Guðmundsson varðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að þetta hafi farið betur en á horfðist í byrjun.

„Það verða einungis tveir fluttir til skoðunar. Það virðist hafa orðið flugeldaslys og þau fengið í sig glæringar og smá högg. Það er verið að flytja þá í þessum töluðu orðum. Það er enginn alvarlega slasaður. Það leit út fyrir það í upphafi en svo er ekki.“

Sigurbjörn segir að ungmennin hafi sjálf hringt í Neyðarlínuna og kallað eftir aðstoð. Ekki er vitað hvort eitthvað hafi verið búið að eiga við flugeldana áður en þeir voru sprengdir í Esjuhlíðum.

„Það voru líklega fjögur sem lentu í þessu,“ segir Sigurbjörn en hafði ekki upplýsingar um það hvort fleiri ungmenni hafi verið á staðnum þegar slysið varð. Ungmennin eru nú aðstoðuð niður Esjuna og verða tvö þeirra svo flutt á Landspítalann.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×