Hópur frumkvöðla hefur stofnað lýðháskóla hér á Flateyri og mun hann taka til starfa nú í haust. Skólinn er hugarsmíð Flateyringa og sumargesta bæjarins, þeirra sem eiga hér hús og dvelja yfir sumartímann. Þeir vildu gefa til baka til samfélagsins.
„Ekki síst til að auðga mannlífið yfir vetrartímann. Vegna þess ég hef verið hér bæði að vetri og sumrin. Æði á sumrin en á veturna - það er algjört æði að vera hérna,“ segir Helena Jónsdóttir skólastjóri Lýðháskólans á Flateyri.
Helena segir ótrúlegan fjölda umsókna hafa nú þegar borist og verður haldið áfram að taka við þeim út júní. Nemendur geta leigt herbergi í þessum húsum en einnig er fjölskyldum hjálpað að finna sér samastað.
„Segjum að við verðum með 30-40 nemendur við skólann í haust. Það er gríðarleg viðbót við samfélagið sem er 160 manna samfélag fyrir. Einhverjir hafa óskað eftir að koma með fjölskyldur með sér og þá vonandi náum við að bæta við skóla og leikskóla.“

„Persónuþroski sem við erum að leita að. Fólk fari héðan með meiri trú á eigin getu. betri hugmyndir um hvað það vill hvað ekki. Hvaða áhugi og styrkleikar og veikleikar.“ Helena segir Flateyri kjörinn stað fyrir lýðháskóla. „Ég veit ekki hvort þið tókuð eftir því þegar þið keyrðuð út úr göngunum. Það hægist á manni. Hér er lífið í öðrum takti.“