Fótbolti

Vill ekki fá greitt fyrir að stýra Sevilla

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Caparros er alvöru maður.
Caparros er alvöru maður. vísir/getty
Hinn 62 ára gamli Joaquin Caparros mun stýra spænska liðinu Sevilla út þessa leiktíð og það ætlar hann að gera frítt.

Vincenzo Montella var rekinn um nýliðna helgi enda ekkert gengið hjá liðinu síðan það sló Man. Utd út úr Meistaradeildinni. Nú er staðan sú að liðið er í erfiðri baráttu um að komast í Evrópukeppnina næsta vetur.

Það eru fjórir heimaleikir eftir hjá Sevilla á leiktíðinni og Caparros sér enga ástæðu til þess að fá greitt fyrir sína vinnu.

„Þetta er samningur í tæpan mánuð og allir leikirnir í borginni. Við þurfum ekkert að ferðast. Mér fannst því ekki vera nein ástæða til þess að fá greitt,“ sagði hinn mikli félagsmaður, Caparros.

Caparros stýrði liðinu frá 2000 til 2005. Hann var síðast að þjálfa í Sádi Arabíu en hætti störfum þar í desember.

„Er við töluðum um laun þá sagði Caparros strax að hann vildi ekki fá greitt fyrir sína vinnu. Hann tók það bara ekki í mál,“ sagði forseti Sevilla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×