Timothy Weah, sonur fyrrum besta knattspyrnumanns heims og forseta Líberíu, George Weah, stimplaði sig inn í heimsfótboltann síðustu nótt.
Þá spilaði þessi stórefnilegi 18 ára strákur sinn fyrsta landsleik fyrir Bandaríkin og að sjálfsögðu skoraði hann.
Bandaríkin voru að spila við Bólívíu og unnu, 3-0. Annar 18 ára strákur, Josh Sargent, skoraði einnig í leiknum. Framtíðarmenn.
Weah er á mála hjá PSG og spilaði þrjá leiki fyrir félagið á nýliðnu tímabili. Hann er fæddur í New York og þess vegna gjaldgengur í bandaríska landsliðið. Hann er alinn upp í Bandaríkjunum af móður sinni, Clar, og hefur einnig leikið fyrir yngri landslið Bandaríkjanna.
Hann fór til reynslu hjá Chelsea er hann var 13 ára en ári síðar var hann kominn á mála hjá PSG sem faðir hans lék eitt sinn með.

