Erlent

Youtube-stjarna dregur sig í hlé í kjölfar gagnrýni

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandinu sem um ræðir.
Skjáskot úr myndbandinu sem um ræðir. YouTube
Bandaríska YouTube-stjarnan Logan Paul er hættur að birta myndbönd í bili. Logan sagði frá þessu á Twitter en áður hafði hann birt myndband þar sem hann baðst innilegrar afsökunar.

Leikarinn Stefán Karl Stefánsson gagnrýndi Youtube-stjörnuna í gær og sagði þar að hann ætti að skammast sín fyrir að hafa birt myndband af líki manneskju sem hafði fyrirfarið sér á YouTube-rás sinni. Stefán Karl bættist þannig í hóp fjölmargra sem hafa harðlega gagnrýnt Logan Paul fyrir að birta myndbandið.

Logan og vinir hans gengu fram á lík í skóginum og segir Logan að hann sjái nú eftir því að hafa haldið áfram að taka upp viðbrögðin þeirra. Segist hann einnig sjá eftir því að hafa sett myndbandið á Youtube.

Í myndbandinu sem stjarnan birti á YouTube-rás sinni mátti sjá að félögunum varð ansi brugðið en gerðu jafnframt grín að aðstæðunum. Voru Logan og félagar hans sakaðir um vanvirðingu og viðurstyggilega hegðun. Myndbandið var sett inn á YouTube á sunnudag og höfðu margar milljónir séð það áður en það var tekið út.

Stefán Karl tjáði sig um málið á Twitter-síðu sinni í gær þar sem hann spyr hversu sjúkur viðkomandi þarf að vera til að birta slíkt myndefni til að fá fleiri fylgjendur á YouTube-rásina. Leikarinn biðlar síðan til krakka um að hætta að vera áskrifendur að efni Logan Paul á YouTube svo hann læri eitthvað af þessu.

Logan tekur ekki fram í stuttri Twitter-færslu sinni hversu lengi hann ætli að taka sér hlé frá birtingu myndbanda en hann hefur birt myndbönd daglega í meira en 400 daga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×