Erlent

Kim Yong-un býður Moon Jae-in heim

Kim Yo-jong afhenti Moon Jae-in handskrifað bréf bróður síns eftir morgunverðarfund þeirra í Seoul í morgun.
Kim Yo-jong afhenti Moon Jae-in handskrifað bréf bróður síns eftir morgunverðarfund þeirra í Seoul í morgun. vísir/afp
Kim Jong-un einræðisherra Norður-Kóreu hefur boðið Moon Jae-in forseta Suður-Kóreu til Pyongyang í Norður-Kóreu. Slík heimsókn yrði fyrsti fundur leiðtoga kóresku ríkjanna í meira en áratug. BBC greinir frá.

Handskrifað boðskort var afhent Moon Jae-in á fundi Kim Yo-jong, systur Kim Jong-un, og forsetans við opnun Vetrarólympíuleikanna. Í boðskortinu er Moon Jae-in boðið að heimsækja Pyongyang við „fyrsta mögulega tækifæri“.

Fundur Yo-jong og Jae-in var merkilegur fyrir þær sakir að enginn meðlimur Kim-fjölskyldunnar hefur farið á fund suðurkóresks þjóðhöfðingja frá árinu 2007 þegar Kim Jong-il og Roh Moo-hyun þáverandi leiðtogar ríkjanna hittust.

Kim Yo-jong er áhrifamikil innan valdaklíku Norður-Kóreu, en hún er yngsta dóttir leiðtogans fyrrverandi Kim Jong-il. Staða hennar innan stjórnarinnar styrktist á síðasta ári þegar hún tók sæti í stjórnmálanefnd landsins.

Moon Jae-in sagði að fulltrúar Norður- og Suður-Kóreu myndu reyna að láta verða af heimsókninni og hvatti Norður-Kóreu til að hefja á ný samningarviðræður við Bandaríkin.

Engin áform um viðræður milli Norður-Kóreu og Bandaríkjamanna

Norðurkóresk yfirvöld hafa greint frá því að engin áform séu um að ræða við fulltrúa Bandaríkjanna á meðan Vetrarólympíuleikarnir standa yfir. Þá hafa bandarísk yfirvöld varað við samskiptum við leiðtoga Norður-Kóreu og telur Bandaríkjastjórn að Norður-Kóreumenn ætli sér að nýta leikana í áróðursskyni.

Ríkisstjórn Trump hefur áhyggjur af því að ráðamenn í Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu, falli fyrir gylliboðum Norður-Kóreumanna og hefur Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, verið harðorður í garð norðurkóreskra stjórnvalda vegna kjarnorkuáætlunar og eldflaugatilrauna landsins.


Tengdar fréttir

Norður-Kórea plati engan

Það er einungis mánaða­spurs­mál hvenær Norður-Kórea getur skotið kjarnorkusprengjum á Bandaríkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×