Myndbandið, sem er ansi magnað, er birt á Facebook-síðu tælenska sjóhersins, en þar heyrist kafarinn spyrja hversu margir þeir eru.
„Þrettán,“ heyrist svarað.
„Þrettán? Frábært,“ svarar kafarinn.
Þá heyrist hann segja hópnum að fleiri björgunarmenn séu á leiðinni og einn af strákunum biður kafarann um að segja björgunarmönnunum að þeir séu svangir.
Strákarnir og þjálfari þeirra eru heilir á húfi að sögn yfirvalda en þeir festust í hellinum vegna úrhellisringingar. Búið er að dæla tíu þúsund lítrum af vatni úr hellinum og verður því haldið áfram á meðan læknar og hjúkrunarfræðingar verða sendir inn í hellinn til að athuga með líðan drengjanna og þjálfarans.
Ef læknarnir meta það sem svo að drengirnir og þjálfarinn séu í nógu góðu líkamlegu ástandi til að vera færðir út úr hellinum þá verður það gert.
Meira en þúsund manns hafa tekið þátt í leitinni að strákunum og þjálfaranum.