Viðhaldsvinna og uppbygging á Ásmundarsal við Freyjugötu 41 er hafin. Áætlað er að húsið verði formlega opnað vorið 2018. Það er arkitektastofan Kurtogpí sem mun hafa umsjón með endurbótum á húsinu.
Fjárfestarnir og hjónin Sigurbjörn Þorkelsson og Aðalheiður Magnúsdóttir keyptu húsið og borguðu fyrir það 168 milljónir. Áður var Listasafn ASÍ með starfsemi þar í um árabil.
„Okkur langar til að það verði líf í húsinu á meðan á framkvæmdum stendur og kynnum því til leiks Ásmundarsal í endurnýjun,“ segir Aðalheiður. „Við stefnum að því að vera með uppákomur og sýningar í húsinu. Eins verður hægt að koma hér við. Fólk getur þá fylgst með framkvæmdum og upplifað eitthvað skemmtilegt á sama tíma. Sýningargestir gætu þurft að vera með öryggishjálma á næstu mánuðum,“ segir hún og hlær.
Fyrstu sýningar undir þessum formerkjum verða opnaðar á HönnunarMars, á fimmtudag. Annars vegar er sýningin CECI NES'T PAS UN MEUBLE þar sem 12 myndlistamenn taka þátt í sameiginlegu verkefni. Hver og einn breytti sama húsgagninu í myndverk. Þessi viðburður er á vegum vefsíðunnar Islanders en bryddað verður upp á þeirri nýjung að uppboð á verkunum fer fram á vefsíðunni þar sem fólki er gert kleift að bjóða í öll verkin.
Hins vegar er sýningin GAIA by Gulla for Saga Kakala. Gulla Jónsdóttir, arkitekt í Los Angeles, kynnir þá silkislæðu- og kasmírtreflalínuna Gaia. Einnig verður á sýningunni myndbandsinnsetning sem fjallar um innblástur að línunni sem er fenginn úr íslenskri náttúru og má finna í teikningum, arkitektúr og húsgagnahönnun Gullu.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu
Framkvæmdir hafnar við Ásmundarsal
Benedikt Bóas skrifar
