Innlent

Matvælastofnun varar við neyslu á hráu kjöti

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þessa þarf að steikja að mati MAST.
Þessa þarf að steikja að mati MAST. Vísir/AFP
Matvælastofnun varar við neyslu á hráu kjöti nema því sé ætlað að vera neytt án hitameðhöndlunar. Líkurnar á iðrasýkingum margfaldast við neyslu á hráu kjöti og er meiri hætta af hökkuðu kjöti en heilum vöðvum

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun þar sem segir að aðvörunin sé af gefnu tilefni en óvenjulegt nesti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hrátt hakk á tekexi, hefur vakið mikla athygli.

Í tilkynningunni segir að kjöt sem ætlað er til neyslu hrátt sé meðhöndlað á annan hátt en hrátt kjöt sem ætlað er til eldunar. Ýmsar sjúkdómsvaldandi örverur og sníkjudýr geta fundist í kjötvörum og valdið iðrasýkingum í fólki. Má þar nefna kampýlóbakter, salmonellu, listeríu, E. coli, Clostridium, Bacillus cereus, Staphylococcus aureus, Toxoplasma svo dæmi séu nefnd

Matvælastofnun segir að tíðni þessara örvera sé lág á Íslandi borið saman við önnur lönd en þrátt fyrir það geta þessar sjúkdómsvaldandi örverur ávallt verið til staðar og margfaldast líkurnar á iðrasýkingu ef kjötið er ekki hitameðhöndlað fyrir neyslu.

Meiri hætta er af kjúklinga- og svínakjöti en lamba-, hrossa- eða nautakjöti og þá er meiri hætta af af hráu hökkuðu kjöti en af heilum vöðvum þar sem gerlar í heilum vöðvum eru yfirleitt bundnir við yfirborð vöðvans á meðan þeir geta leynst jafnt innan í hakki sem utan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×