Lífið

Sigmundur um hráfæðisnestið: „Kexinu var kannski ofaukið“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segist vera farinn að venja sig á að borða nesti á borð við það sem hann var með í gær, hrátt nautahakk ofan á tekex.



„Ég er farinn að venja mig á þetta í seinni tíð. Þetta er svo bragðgott en svo getur maður gert þetta með góðri samvisku því að þetta er heilnæmt. Það er engin snýkjudýr eða eitthvað í þessu,“ sagði Sigmundur Davíð aðspurður um nestið sitt í Reykjavík síðdegis fyrr í dag.

Hann segir að hægt sé að leika sér með útfærslunar og mögulega sé ekki þörf á því að vera með tekex.

„Kexinu var kannski ofaukið því kjötið er ljómandi gott eitt og sér en svo er hægt að leika sér með þetta og setja á það pipar og salt eða einhver krydd,“ sagði Sigmundur Davíð.

Næringarfræðingurinn Elísabet Reynisdóttir var í gær spurð álits á nesti Sigmundar Davíðs og var hún heilt yfir ánægð með mataræði þingmannsins en bætti þó við að hann mætti bæta meira grænmeti við mataræðið.

„Hún er nú ekki sú fyrsta sem segir mér að borða meira grænmeti. En ég er alltaf að reyna og reyna að taka þetta sérstaklega til skoðunar, íslenskt grænmeti auðvitað,“ sagði Sigmundur Davíð.

 

Hlusta má á Sigmund Davíð ræða nestið sitt í spilaranum hér að ofan. Umræðan hefst þegar átta mínútur eru liðnar að hljóðbrotinu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×