Innlent

Telja lík bandaríska ferðamannsins fundið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna leitarinnar að manninum í morgun.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna leitarinnar að manninum í morgun. Vísir/Vilhelm
Lögreglan telur að lík sem björgunarsveitarmenn fundu af karlmanni við Jökulsá á Sólheimasandi í dag sé af bandarískum ferðamanni sem leitað hafði verið að í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Ekki er talið að andlát mannsins hafi borið að með saknæmum hætti.

Þar segir að leitað hafi verið að manninum í morgun eftir að aðstandendur hans fóru að grenslast fyrir um afdrif hans seint í gærkvöldi.

Vísir greindi frá leitinni í morgun en maðurinn ætlaði að fara frá landinu þann 13. október síðastliðinn en skilaði sér ekki heim. Bíll mannsins fannst síðan í morgun á bílastæði þar sem gengið er að flugvélaflaki á Sólheimasandi og í kjölfarið voru björgunarsveitir kallaðar út ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar.

„Nú eftir hádegið fundu björgunarsveitarmenn lík af karlmanni við Jökulsá á Sólheimasandi og er það talið vera af manninum.  Líkið verður flutt til Reykjavíkur þar sem Kennslanefnd Ríkislögreglustjóra  ásamt réttarmeinafræðingi og tæknideild lögreglu Höfuðborgarsvæðisins munu sjá um að bera kennsl á hinn látna ásamt því að krufning mun leiða í ljós dánarorsök mannsins. Ummerki á vettvangi benda ekki til þess að andlát mannsins hafi borið að með saknæmum hætti,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Bandaríski ferðamaðurinn fundinn

Það var laust eftir hádegi sem lögreglan á Suðurlandi fann bílaleigubíl mannsins á bílastæðinu skammt frá flugvélarflakinu á Sólheimasandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×