Innlent

Bandaríski ferðamaðurinn fundinn

Birgir Olgeirsson skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna leitarinnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna leitarinnar. Vísir/Vilhelm
Bandaríski ferðamaðurinn sem leitað var að í dag er fundinn.

Það var laust eftir hádegi sem lögreglan á Suðurlandi fann bílaleigubíl mannsins á bílastæðinu skammt frá flugvélarflakinu á Sólheimasandi.

Þyrla Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitir voru ræstar út til að leita að manninum og fannst hann á öðrum tímanum í dag.

Ekki er hægt að greina frá líðan hans að svo stöddu né hvar maðurinn fannst.

Vísir greindi frá því í morgun að lögreglan á Suðurlandi hefði hafið leit að manninum sem ætlaði að dvelja hér á landi í einn dag. Maðurinn kom með flugi til Íslands 12. október síðastliðinn og ætlaði samkvæmt ferðaplani hans að fara til Parísar daginn eftir og skila sér aftur til Bandaríkjanna 19. október síðastliðinn.

Lögreglan sagðist í samtali við Vísi ætla að svipast um eftir bílaleigubíl mannsins á helstu ferðamannastöðum Suðurlandsins, en hann fannst líkt og fyrr segir á bílastæðinu sem er í grennd við flugvélarflakið á Sólheimasandi.

Fjölskylda mannsins hafði ekki heyrt frá honum síðan hann var á Íslandi en síðast var vitað um ferðir hans þegar hann skráð sig út af HI Hostel við Skógafoss 13. október síðastliðinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×