Erlent

Fæturnir blóðugir eftir árás dularfullra sjávarlífvera

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Eftir um þrjátíu mínútna bað kom Sam Kanizay aftur á land en þá voru fætur hans þaktir litlum stungusárum sem mikið blæddi úr.
Eftir um þrjátíu mínútna bað kom Sam Kanizay aftur á land en þá voru fætur hans þaktir litlum stungusárum sem mikið blæddi úr. Vísir/afp
Sextán ára piltur, sem stakk sér til sunds á strönd í Melbourne í Ástralíu, hefur vakið athygli sjávarlíffræðinga en þegar pilturinn kom aftur upp úr sjónum voru fætur hans þaktir blóði. Talið er að einhvers konar sjávarlífverur hafi valdið meiðslunum en sérfræðingum ber ekki saman um hvaða dýr það hafi verið.

Rétt er að vara við nærmynd af meiðslum piltsins sem fylgir fréttinni hér að neðan.

Sam Kanizay ákvað að kæla fætur sína í sjónum eftir fótboltaleik á laugardag í borginni Melbourne. Eftir um þrjátíu mínútna bað kom hann aftur á land en þá voru fætur hans þaktir litlum stungusárum sem mikið blæddi úr, að því er fram kemur í frétt AP-fréttaveitunnar

Faðir Kanizay sagði starfsfólk sjúkrahússins ekki hafa hugmynd um hvers konar skepna hafi getað valdið sárunum. Hann tók því til sinna ráða og sneri aftur á ströndina daginn eftir. Þar fangaði hann nokkrar litlar sjávarlífverur.

„Það er greinilegt að þessi litlu sníkjudýr elska kjöt,“ sagði Jarrod Kanizay, faðir Sams. Hann veiddi dýrin, sem svipar nokkuð til skordýra, með því að nota kjöt sem beitu. Hann telur að dýrin beri ábyrgð á meiðslum sonarins.



Engar skýringar hafa enn fengist á meiðslum Sam Kanizay.Vísir/AFP
Sérfræðingum ber ekki saman um hvers konar dýr hafi bitið eða stungið piltinn. Einhverjir telja að um sé að ræða tegund lífvera sem venjulega leggur sér rotnandi plöntuleifar til munns. Aðrir segjast ekki muna eftir því að hafa séð sníkjudýr á borð við þessi áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×