Björn Þorsteinsson hefur óskað eftir lausn frá störfum sem rektor Landbúnaðarháskóla Íslands. Ákörðunin er tekin af persónulegum ástæðum og mun Björn hverfa aftur til prófessorstarfa innan skólans.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.
„Háskólaráð LbhÍ mun í kjölfarið undirbúa auglýsingu um ráðningu nýs rektors í samstarfi við menntamálaráðuneytið. Fram að því mun Björn gegna starfinu.
Björn hefur starfað sem rektor LbhÍ frá 1. ágúst 2014 þegar hann var settur í starfið með stuttum fyrirvara. Megin verkefni sem þá biðu voru að snúa við hallarekstri skólans sem var orðinn mjög skuldugur við ríkissjóð. Viðsnúningur í rekstri hefur skilað afgangi síðastliðin tvö ár og vel hefur gengið að niðurgreiða skuldir skólans við ríkissjóð. Þessi niðurstaða og ákvörðun alþingis í kjölfarið um afskriftir skulda munu ef allar áætlanir ganga eftir, skila skuldlausum skóla í árslok 2017. Það eru því bjartir tímar framundan hjá Landbúnaðarháskólanum og nýr rektor mun taka við góðu búi,“ segir í tilkynningunni.

