Manchester United mætir á Liberty-leikvanginn í Swansea í hádegisleiknum í fyrsta leik annarrar umferðar ensku úrvalsdeildarinnar.
Þetta verður fyrsti leikur Swansea City eftir að félagið seldi Gylfa Þór Sigurðsson til Everton fyrir 45 milljónir punda.
Gylfi Þór Sigurðsson hefur sagt frá því að hann hafi verið mikill stuðningsmaður Manchester United þegar hann var yngri og þá hefur íslenski landsliðsmaðurinn fundið sig einstaklega vel í leikjum á móti Manchester United undanfarin þrjú tímabil.
Gylfi hefur komið að marki í fimm af síðustu sex leikjum sínum á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni þar af báðum mörkunum í sigri á Old Trafford í fyrstu umferð 2014-15 tímabilsins.
Gylfi skoraði glæsimark beint úr aukaspyrnu í síðasta leik liðanna og tryggði Swansea með því 1-1 jafntefli á Old Trafford.
Það má því bóka að stuðningsmenn Manchester United séu fegnir því að vera lausir við íslenska landsliðsmanninn á Liberty-leikvanginum í dag. Gylfi sjálfur fær vonandi síðan tækifæri til að stríða öðru Manchester-liði á mánudagskvöldið þegar Everton mætir Manchester City.
Síðustu sex leikir Gylfa á móti Man. Utd í ensku úrvalsdeildinni:
Tímabilið 2014-15
2-1 sigur Swansea á Old Trafford
Sigurmark og stoðsending á Sung-Yong Ki
2-1 sigur Swansea á Liberty
Tímabilið 2015-16
2-1 sigur Swansea á Liberty
Stoðsending á André Ayew
2-1 tap Swansea á Old Trafford
Mark
Tímabilið 2016-17
3-1 tap Swansea á Liberty
Stoðending á Mike van der Hoorn
1-1 jafntefli Swansea á Old Trafford
Jöfnunarmark beint úr aukaspyrnu
Samtals síðustu þrjú tímabil
6 leikir (3 sigrar, 1 jafntefli, 2 töp)
3 mörk skoruð
3 stoðsendingar
Ástæðan fyrir því að Man. United menn eru fegnir að vera lausir við Gylfa í dag
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
