Innlent

Rauði bragginn gefur „mjög svo ranga mynd“ af þjónustumiðstöðinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skjáskot úr myndbandinu sem sýnir staðsetningu þjónustumiðstöðvarinnar.
Skjáskot úr myndbandinu sem sýnir staðsetningu þjónustumiðstöðvarinnar.
Óhætt er að segja að skiptar skoðanir séu um fyrirhugaða byggingu þjónustumiðstöðvar sem til stendur að byggja á milli Seljalandsfoss og Gljúfrabúa. Miðstöðin á að vera um tvö þúsund fermetrar að stærð og sjö metra há samkvæmt deiliskipulagi Rangárþings eystra sem þó á enn eftir að samþykkja.

Myndband sem andstæðingar staðsetningar miðstöðvarinnar hafa komið í birtingu hefur vakið mikla athygli og verið horft á það tæplega 100 þúsund sinnum á rúmum tveimur sólarhringum. Þá hefur verið efnt til undirskriftarsöfnunar til að mótmæla staðsetningunni.

Myndbandið sýnir staðsetningu þjónustumiðstöðvarinnar sem ekki hefur verið hönnuð frá nokkrum sjónarhornum. Þjónustumiðstöðin er teiknuð sem brúnrauður kassi, reyndar átta metra hár eins og til stóð að byggingin yrði til að byrja með. Raunar virðist gæta misskilnings hjá fólki sem telur að miðstöðin eigi að vera brúnrauður kassi en svo er ekki.

Byggingar- og skipulagsfulltrúi Rangárþings eystra minnir á að engin drög séu til um hönnun nýrrar þjónustumiðstöðvar. Rauðbrúni bragginn sem sjáist í myndbandinu gefi mjög svo ranga mynd af því hvernig hönnun verði háttað. Vandað verði til verka og byggingin muni falla vel að landslagi svo hún valdi sem minnstu spjöllum á náttúrulegu umhverfi.

Vinna við skipulagið hefur staðið yfir frá árinu 2013 þegar þverpólitískur starfshópur á vegum sveitastjórnar var skipaður. Tvær tillögur voru á borðinu til að byrja með, báðar miðsvæðis miðað við fossana tvo. Önnur með uppbyggingu austan Þórsmerkurvegar með óbreyttum vegi en hin vestan hans sem kallar á færslu vegarins að varnargarði Markarfljóts og uppbyggingu austan hans. Þriðja tillagan, uppbygging sunnarlega á skipulagssvæðinu, kom fram frá landeigendum. Varð niðurstaðan á endanum sú að byggja miðstöðina austan nýs Þórsmerkurvegar.

Deiliskipulagstillaga fyrir svæðið sem Skipulagsstofnun á eftir að samþykkja.
Guðrún Ingibjörg Hálfdánardóttir, einn af landeigendum Ytra-Seljalands sem er mótfallin staðsetningunni, segir miðstöðina muni skyggja á fossinn.

„Viljum við 2000 fermetra byggingu, 7 metra háa á hinu viðkvæma svæði milli Hamragarða og Seljalandsfoss? Við sem eigum fallegt lítt snortið land og ferðamenn dásama fyrir það - ætlum við að vera heimsk og byggja ofan í náttúruperlur?“ spyr Guðrún sem stofnað hefur Facebook-síðuna Verndum Seljalandsfoss sem tæplega fimm þúsund manns hafa lækað.

Skoðanir eru skiptar á þjónustumiðstöðinni og velta sumir fyrir sér hvort málið sé ekki hreinlega að hafa hana niðurgrafna. Þeirri spurningu veltir fjölmiðlamaðurinn Kristinn Hrafnsson fyrir sér en þannig mætti byggja hana á þessum stað án þess þó að hún myndi skyggja nokkuð á fossinn.

„Er það of augljóst?“ spyr Kristinn en mögulega gætu slíkar tillögur komið fram í hönnunarsamkeppni fyrir þjónustumiðstöðina.

Anton Kári Halldórsson, byggingar- og skipulagsfulltrúi Rangárþings eystra, skrifar samantekt um málið á heimasíðu sveitafélagsins í dag vegna fréttaflutnings undanfarinna daga. Þar koma einnig fram athugasemdir umsagnaraðila vegna tillögunnar sem varð fyrir valinu.

Umhverfisstofnun tekur undir að tillagan sé sú besta en mikilvægt sé að lágmarka sjónræn áhrif bygginga við þjónustuhús, séð frá fossinum. Ferðamálastofa fagnar vinnulagi við gerð tillögunnar en vill að hæðin, sem þá var átta metrar, verði endurmetin. Hún er í dag sjö metrar. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands gerir engar athugasemdir og Vegagerðin minnir aðeins á að núverandi leið í Þórsmörk verði lokað þegar nýja leiðin verði opnuð.

Anton Kári Halldórsson.
Minjastofnun bendir á að mikið sé um fornminjar á svæðinu og mikilvægt og þær komist ekki í uppnám. Fara verði varlega í framkvæmdum.

Náttúrufræðistofnun segir aftur á móti erfitt að átta sig á sjónrænum áhrifum frá fossinum og tillöguna hefði mátt setja betur fram. Tillaga landeigendanna megi mögulega vinna áfram með, þ.e. hafa miðstöðina nær Suðurlandsvegi til að lágmarka sjónræn áhrif. Tillagan, sem varð fyrir valinu, virðist mikið til valin af hagkvæmnissjónarmiðum.

Rekstraraðilar við fossinn, Seljalandsfoss ehf og Seljaveitingar, gagnrýna sjónrænu áhrifin mjög, sömuleiðis byggingamagn og hæð hússins. Náttúran fái ekki að njóta vafans og ekki hafi verið haft nægt samráð við þau við vinnuna. Nánar má lesa um athugasemdirnar í PDF skjali hér að neðan.


Tengdar fréttir

Mjög sátt í flughálku við Seljalandsfoss

Glerhált er við flestar náttúruperlur landsins um þessar mundir og ferðamönnum verður mörgum hált á svellinu. Við Seljalandsfoss í gær lentu sumir í örlítilli svaðilför er þeir hlýddu ekki tilsögn leiðsögumanna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.