Fótbolti

Sara Björk stígur léttan dans á leikdegi | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dans, dans, dans
Dans, dans, dans skjáskot
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands í fótbolta, og stöllur hennar í þýska meistaraliðinu Wolfsburg mæta Fiorentina í seinni leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld.

Þýsku meistararnir eru í fínum málum fyrir kvöldið eftir 4-0 sigur í Flórens þar sem Sara Björk tók sig til og skoraði tvö mörk fyrir Wolfsburg sem er komið með annan fótinn í átta liða úrslitin.

Wolfsburg vann Meistaradeildina árin 2013 og 2014 en féll úr leik í átta liða úrslitum í fyrra á móti franska liðinu Lyon sem stóð svo uppi sem sigurvegari eftir sigur í vítaspyrnukeppni á móti Paris Saint-Germain í úrslitaleiknum.

Sara Björk virðist ekkert vera að drepast úr stressi fyrir kvöldið miðað við myndband sem hún setti inn á Twitter-síðu sína í hádeginu.

Þar er hún í rólegheitum að rölta um stræti Wolfsburg og tekur léttan en skemmtilegan dans sem endar með hinu víðfræga „Dab“-i.

Þennan glæsilega dans landsliðsfyrirliðans má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×