Spice er nýjasta tískudópið á Litla-Hrauni, en hefur ekki náð miklum vinsældum utan fangelsisins. Samkvæmt eftirgrennslan Fréttablaðsins er talsvert um sölu Spice á Facebook. Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu – félags fanga, segist taka eftir söluaukningu á Spice utan fangelsanna, sem sé mikið áhyggjuefni.

„Þetta er mjög hættulegt efni og við hjá Afstöðu höfum miklar áhyggjur af þessu. Við erum til dæmis að sjá það í fangelsunum að það er verið að kalla til lækna og menn eru að fara í hjartastopp, og það verður mjög alvarlegt þegar þetta dóp verður að faraldri á Íslandi,“ segir Guðmundur Ingi hjá Afstöðu.
Spice telst til löglegra efna hér á landi, en listi yfir ólögleg fíkniefni hefur ekki verið uppfærður frá 2001. Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, segir að þar af leiðandi séu þessi fíkniefni ekki haldlögð.

„Þessar upplýsingar byggi ég bara á því sem er að koma inn til okkar. Spice er ekki á lista yfir ólögleg fíkniefni og þar af leiðandi væri ekkert sem við gætum gert í því – það er ekkert til að leggja hald á. Það er hins vegar eitthvað sem er alveg hægt að gagnrýna, það hvað efni eru lengi að komast inn á þennan lista,“ segir Grímur.
Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður Litla-Hrauns, segir að sífellt sé verið að auka eftirlit með notkun efnisins. Starfsfólk sé með meiri kunnáttu og þekkingu á meðhöndlun þess en áður. „Við þekkjum betur einkenni manna sem eru undir áhrifum og erum vakandi fyrir ákveðnum hlutum sem við erum að finna í klefunum og geta mögulega verið Spice,“ segir Halldór.