Innlent

Jón fékk ekki ráðherrastól

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Gunnarsson þegar hann mætti til fundarins rétt fyrir hálf tólf í dag.
Jón Gunnarsson þegar hann mætti til fundarins rétt fyrir hálf tólf í dag. Vísir/Vilhelm
Jón Gunnarsson verður ekki ráðherra í nýrri ríkisstjórn. Þingmaðurinn og ráðherrann fráfarandi yfirgaf þingflokksfund Sjálfstæðisflokksins í hádeginu á meðan honum stóð. Á fundinum gerði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tillögu um fimm ráðherra flokksins.

Bjarni Benediktsson verður fjármála- og efnahagsmálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson verður utanríkisráðherra, Sigríður Á. Andersen verður dómsmálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra auk þess sem Kristján Þór Júlíusson verður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

„Ég var við þessa tillögugerð í þeirri óþægilegu stöðu að hafa úr færri embættum að spila en átti við fyrir nokkrum mánuðum. Að því leitinu til var ekkert við því að búast að allir yrðu ánægðir með niðurstöðuna,“ sagði Bjarni Benenediktsson í aukafréttatíma Stöðvar 2 í hádeginu.

Hann sagði Jón hafa stutt tillöguna en lýst yfir vonbrigðum. Svo yfirgaf Jón fundinn.

Jón gegndi embætti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í fráfarandi ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn hafði sex ráðherra í síðustu ríkisstjórn en einum færri í ríkisstjórn með Vinstri grænum og Framsókn. Því var ljóst að einn ráðherra flokksins þyrfti í það minnsta að víkja óháð því hvort breytingar yrðu á því hvaða fólk skipaði einstök embætti ráðherra.

Ekki náðist í Jón Gunnarsson við vinnslu fréttarinnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×