Innlent

Lilja Rafney: „Minn tími mun koma“

Atli Ísleifsson skrifar
Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur átt sæti á þingi frá árinu 2009.
Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur átt sæti á þingi frá árinu 2009. Vísir/Ernir
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingkona Vinstri grænna, segist lítast vel á þá úr röðum Vinstri grænna sem munu gegna ráðherraembættum. Nafn Lilju Rafneyjar hafði oft komið upp í umræðum um mögulega ráðherra Vinstri grænna.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, greindi frá því í hádeginu að hún muni gegna embætti forsætisráðherra, Svandís Svavarsdóttir embætti heilbrigðisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson embætti umhverfisráðherra.

„Við fáum þarna góðan einstakling inn í umhverfisráðuneytið. Ég hefði algerlega við tilbúin að taka að mér ráðuneyti, líkt og fleiri í þingflokknum. Það var hins vegar niðurstaðan að þetta væri gott fyrir okkur sem heild að breikka hópinn og fá þarna inn mann sem hefur starfað lengi með Landvernd og þekkir þennan geira vel. Þetta er öflugur liðsauki,“ segir Lilja Rafney um Guðmund Inga.

Lilja segist ekki vera svekkt eða sár að hún hafi sjálf ekki fengið ráðherraembætti. „Ég tek við þeim verkefnum sem koma hverju sinni. Minn tími mun koma svo ég endurtaki orð góðrar konu. Það veit enginn hvað verður gert síðar á kjörtímabilinu í þessum efnum.“

Lilja Rafney segist reikna með að henni verði falin formennska í nefnd þó að enn eigi eftir að ganga frá því.


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.