Innlent

Reikna með meira smygli á sænsku munntóbaki

Benedikt Bóas skrifar
Um 32 tonn enduðu undir vörinni hjá ungum karlmönnum á síðasta ári.
Um 32 tonn enduðu undir vörinni hjá ungum karlmönnum á síðasta ári. vísir/gva
Tollayfirvöld munu verða með sérstaka athugun á farþegum sem koma frá Svíþjóð næstu misserin en búast má við smyglbylgju af sænsku neftóbaki til landsins í kjölfar 60 prósenta hækkunar á íslensku neftóbaki. Eftir hækkunina kostar ein neftóbaksdós út úr búð í kringum 3.000 krónur.

Kári Gunnlaugsson yfirtollvörður segir að tollurinn sé alltaf með virkt eftirlit gegn smygli á sænsku munntóbaki og oft taki þeir dósir af farþegum. „Það er eins með tóbakið og annað, þegar verðið fer upp þá fer fólk að kíkja í kringum sig. Þetta er eitthvað sem er á okkar borðum og það er virk athugun í gangi. Hvernig hún er get ég að sjálfsögðu ekki gefið upp.“

Kári segir að tollurinn leggi yfirleitt hald á frekar smáar sendingar til landsins sem séu faldar í töskum farþega. Yfirleitt séu það 10-30 dósir. „Við höfum ekki náð miklu af stórum sendingum. Þær koma yfirleitt í gegnum skipin.“

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segir að starfsmenn félagsins lúti lögum landsins og smygl sé ólöglegt. Verði starfsmaður uppvís að slíku sé honum sagt upp. Slíkt hafi gerst áður og vinni Eimskip náið með tollayfirvöldum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

40 tonn seld af neftóbaki í ár

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins leggur til að tóbaksgjald hækki um allt að 69 prósent á hvert gramm tóbaks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×