Innlent

Hæstiréttur staðfesti dóm yfir smyglurunum fjórum í Norrænu-málinu

Kolbeinn Tumi Daðason og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Frá meðferð málsins í Hæstarétti.
Frá meðferð málsins í Hæstarétti. vísir/gva
Hæstiréttur dæmdi í dag þá Davíð Berndsen Bjarkason, Baldur Guðmundsson, Angelo Uyleman og Peter Schmitz í fangelsi fyrir umfangsmikið fíkniefnasmygl með Norrænu í september 2015.

Í héraði var Davíð dæmdur í átta og hálfs árs langt fangelsi, Baldur í átta ár og þeir Angelo og Peter í fimm ára fangelsi. Hæstiréttur lét dóm Héraðsdóms Reykjavíkur standa óraskaðan.

 

Fjórmenningarnir voru ákærðir fyrir að hafa flutt inn til landsins annars vegar 19,5 kíló af amfetamíni og hins vegar 2,5 kíló af kókaíni en efnin voru falin í Volkswagen Touran sem Angelo kom á hingað til lands þann 22. september 2015.

Angelo var ákærður fyrir flutninginn á efnunum hingað til lands og Peter ákærður fyrir að hafa undirbúið og aðstoðað þann fyrrnefnda vegna ferða hans hingað til Íslands. Angelo fór af landi brott þann 25. september og kom aftur þremur dögum síðar. Þá var Peter með honum í för.

Þeir Baldur og Davíð voru svo ákærðir fyrir að hafa skipulagt innflutninginn á fíkniefnunum til Íslands og að hafa fjármagnað kaupin á efnunum að hluta.

Fjórmenningarnir voru allir dæmdir til að greiða laun verjenda sinna. 

Baldur, Angelo og Peter þurfa að greiða verjendum sínum um 1,9 milljónir króna hver, en Davíð Berndsen þarf að greiða verjanda sínum rúmar tvær milljónir króna samkvæmt dómi Hæstaréttar. Sakborningar voru ekki viðstaddir dómsuppkvaðninguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×