Hótelið yrði það stærsta á landinu, talsvert stærra en Fosshótel á Höfðatorgi. Væri fjórar hæðir og kjallari á samtals 17.500 fermetrum. Lóðin er í horni Hlíðarendalandsins þar sem Nauthólsvegur og Hringbraut mætast.
„Málið hefur verið lagt inn sem fyrirspurn og þar erum við,“ segir Páll Gunnlaugsson, arktiekt og hönnuður hótelsins, um stöðu verkefnisins.

„Það verða flutt inn fullbúin herbergi,“ segir Páll. Aðspurður hvernig byggingaraðferðin takmarki möguleika hans sem arkitekts segir hann aðferðina ekki binda hendur sínar. „Ég held að það sé alveg ofmetið að arkitektar vilji alltaf hafa eitthvert rosalegt frelsi, þannig séð. Þetta eru náttúrlega bara herbergi eins og öll hótel eru. Svo er það matrixa að raða þessu saman þannig að þetta verði spennandi og uppfylli kröfur skipulags og slíkt.“
Um er að ræða aðferð sem ekki hefur verið beitt hér áður. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur í áfangaumsögn, að sögn Páls, sagt að byggingaraðferðin sé í lagi. „Þeir gera engar sérstakar athugasemdir. Þeir vilja skoða hvort gluggarnir standist slagveður og það er fullur skilningur á því.“

Ekkert liggur fyrir um hver myndi reka hótelið sem hannað er sem þriggja eða fjögurra stjörnu hótel með mismunandi vistarverum, móttöku, veitingasal og þess háttar.
Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær er það félag að nafni O1 ehf. sem eignaðist umrædda lóð í byrjun þessa árs. Að baki því félagi eru Jóhann Halldórsson og Valgerður Margrét Backman. Jóhann kveðst ekkert vilja tjá sig um hótelverkefnið. Það er nú til skoðunar hjá verkefnisstjóra á skipulagssviði borgarinnar.