Stefna um úrgangsforvarnir er sett til tólf ára í senn af umhverfisráðherra. Stefnan hefur það markmið að draga markvisst úr myndun úrgangs. Ný stefna, Saman gegn sóun – almenn stefna um úrgangsforvarnir, var sett árið 2016 og gildir því til ársins 2027.

Ekki er stefnt á að framkvæma aðra álíka rannsókn fyrr en að tveimur eða þremur árum liðnum. „Þetta var risaverkefni. Þetta var styrkur til að gera grunnrannsókn en okkur langar að gera aftur rannsókn eftir ár eða tvö, þremur árum frá grunnrannsókn og sjá hvort ástandið sé eitthvað að batna” segir Ingunn Gunnarsdóttir hjá Umhverfisstofnun.

Í stefnu um úrgangsforvarnir er áhersla lögð á níu flokka úrgangs á gildistímanum, sem skipt er í tvennt eftir því í hvers konar forgangi þeir eru. Sex flokkar eru í forgangi í tvö ár í senn, en hina þrjá flokkana er unnið með til lengri tíma. Fyrsti flokkurinn sem lögð var áhersla á var matarsóun undir yfirskriftinni Matur er mannsins megin. Ýmis verkefni hafa verið framkvæmd á tímabilinu og á heimasíðunni www.matarsoun.is er að finna samantekt á þeim, ásamt góðum ráðum til að sporna við henni. Í byrjun næsta árs tekur plast við af matarsóun sem næsta forgangsverkefni stefnunnar til tveggja ára og eru bæði Umhverfisstofnun og Landvernd að búa sig undir breyttar áherslur.
Nú eru í þróun svokallaðir umhverfisvísar hjá Umhverfisstofnun, til að mæla árangur stefnunnar og meta stöðu Íslendinga þegar kemur að öllum þeim flokkum sem til umræðu eru í úrgangsstefnunni. Tillaga um umhverfisvísa verður lögð fyrir nýjan umhverfisráðherra fyrir áramót. Að gefnu samþykki ráðherra ætti að vera hægt að taka þá í notkun á næsta ári. „Það fylgja þessu markmið, fyrir þessa vísa. Þeir munu taka hvern flokk fyrir sig. Það verða skilgreindir vísar fyrir matarsóun, plast og textíl og síðan þessa þrjá flokka sem eru í forgangi allan gildistíma stefnunnar“ segir Guðmundur B. Ingvarsson hjá Umhverfisstofnun.