Innlent

Segir það misskilning að vegtollar flýti vegaframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra samgöngumála.
Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra samgöngumála. Vísir/eyþór
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir að það sé misskilningur að fjármögnun vegaframkvæmda með vegtollum muni flýta fyrir slíkum framkvæmdum. Ekki sé hægt að fara í öll þau verkefni sem kallað hefur verið eftir á sama tíma.

„Misskilningurinn sem hefur legið hérna í loftinu ósvarað í heilt ár er að við það að setja upp vegtollahlið við Reykjavík og á þá sem þurfa vinnu sinnar og athafna vegna að keyra þar í gegn, að það muni flýta framkvæmdum hérna á höfuðborgarsvæðinu. Það er bara alrangt,“ sagði Sigurður Ingi í Víglínunni á Stöð 2 í dag.

Sigurður Ingi hafði ekki verið samgönguráðherra lengi áður en hann sló hugmyndir forvera hans í starfi um að fjármagna vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu með vegtollum. Jón Gunnarsson sem var samgönguráðherra í síðustu ríkisstjórn lét kanna slíkar hugmyndir og sagði meðal annars að með vegtollum væri hægt að flýta framkvæmdum.

Sagði Jón að brýnt væri að fara í nauðsynlegar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og nefndi hann tvöföldun Reykjanesbrautar, tvöföldun upp á Kjalarnesi og tvöföldun á milli Hveragerðis og Selfoss auk gerðar Sundabrautar. Sagði hann að ljóst væri að slíkar framkvæmdir myndu kosta tugi milljarða, til að flýta fyrir því væri nauðsynlegt að sækja fjármuni til framkvæmdanna annars staðar en úr ríkissjóði.

Aðspurður að því af hverju það væri rangt að fjármögnum vegaframkvæmda með vegtollum myndi flýta framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu svaraði Sigurður Ingi því að ekki væri hægt að fara í öll þessi verkefni á sama tíma.

„Það er vegna þess að við getum ekki farið í tvoföldun á Reykjanesbraut, Vesturlandsvegi, Suðurlandsvegi, Sundabrautina, Borgarlínu á sama tíma og við erum að byggja tíu þúsund íbúðir hérna á höfuðborgarsvæðinu. Við þekkjum það mjög vel hvað gerist þegar við setjum allt slíkt í gang,“ sagði Sigurður Ingi sem viðurkenndi þó að þörfin á framkvæmdunum væri brýn.

Því hefði ríkisstjórnin sett 3,6 milljarða til viðbótar í samgöngumál samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi og reiknað væri með að helmingur af því framlagi færi til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.