Innlent

„Það hefur hvorki gengið né rekið í samningaviðræðum við ríkið“

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Bandalag háskólamanna skorar á nýja ríkisstjórn að ganga nú þegar til viðræðna við sautján aðildarfélög bandalagsins um nýja kjarasamninga. Formaður BHM segir óþolandi að nær engar viðræður hafi átt sér stað frá því félögin losnuðu undan gerðardómi í september. 

Aðildarfélögin sautján hafa það sameiginlegt að vera verkalýðsfélög háskólamenntaðra launþega en félögin ásamt Bandalagi háskólamanna boðuðu til morgunverðarfundar með félagsmönnum sínum á Grand hótel Reykjavík í morgun þar sem kjaramál voru til umræðu.

Samninganefndir aðildarfélaganna hafa átt í kjaraviðræðum við ríkið frá árinu 2014 en síðustu þrjá mánuði hefur ekkert gerst eða frá því félögin losnuðu undan gerðardómi. Formaður BHM segir að við það verði ekki unað.

„Það hefur hvorki gengið né rekið í samningaviðræðum við ríkið í haust og í rauninni er staðan orðin óþolandi. Við fáum litla sem enga hlustun á kröfur sem að viðsemjandi okkar þekkir vel og hafa verið á borðinu árum saman,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.

Aðildarfélögin hafa fengið tilboð frá ríkinu en Þórunn segir að ekkert samtal hafi átt sér stað á milli viðsemjenda. Þegar formenn flokkanna þriggja sem nú mynda nýja ríkisstjórn áttu í samningaviðræðum um myndun hennar kölluðu þeir til sín aðila vinnumarkaðarins en eitt stærsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að halda friði á vinnumarkaði.

„Við fengum einn fund með formönnunum. Það var ágætis fundur, þar sem að við fengum að koma helstu sjónarmiðum okkar á framfæri. Það hefur mikið verið rætt um frið á vinnumarkaði og stöðugleika þetta haustið, bæði fyrir kosningarnar og í þessari stjórnarmyndun. Núna viljum við að sjá nýja ríkisstjórn standa við stóru orðin,“ segir Þórunn.

Framhaldsskólakennarar hafa vísað kjarasamningum sínum til ríkissáttasemjara og samningar grunnskólakennara losnuðu í dag.  Á næsta ári losna áttatíu aðrir kjarasamningar á vinnumarkaði.

Í dag sendi BHM áskorun til ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um að gengið verði  þegar til kjarasamninga og að hlustað verði á kröfur aðildarfélaganna. Þeir sem eru á lægstu laununum hjá ríkinu eru með undir fjögur hundruð þúsund í laun á mánuði en lágmarkslaun í landi stefna í að verða þrjúhundruðþúsund krónur.

„Það sjá það allir að það verður ekki við það unandi að fólk sem hefur lagt á sig að fara í háskólanám sé á berstrípuðum lágmarkslaunum,“ segir Þórunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×