Innlent

Erfitt að sanna hraðaksturinn á Teslu Magnúsar

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Magnús Garðarsson er stofnandi United Silicon.
Magnús Garðarsson er stofnandi United Silicon. vísir/eyþór
„Ég held þetta sé í fyrsta sinn sem reynt er að byggja sakfellingu á gögnum sem fengin hafa verið með þessum hætti,“ segir Haukur Örn Birgisson, hæstaréttar­lögmaður og verjandi Magnúsar Garðarssonar, fyrrverandi forstjóra United Silicon, sem er ákærður fyrir stórfelldan hraðakstur á Reykjanesbraut í desember á síðasta ári. Samkvæmt gögnum sem lögregla aflaði frá framleiðanda Tesla-bifreiðar Magnúsar var henni ekið á allt að 183 km hraða.

Ekki liggja fyrir aðrar upplýsingar um hraðann sem Magnús ók á í umrætt sinn en þær sem aflað var frá framleiðanda og ágreiningur er um hvort umrædd gögn dugi til sakfellingar fyrir hraðakstur. „Þetta er alveg nýtt af nálinni. Fólk hefur ekki verið sakfellt hér á landi á grundvelli gagna af þessu tagi heldur hafa þurft að koma til miklu staðfastari gögn eins og til dæmis radarmælingar lögreglu. Þær liggja ekki fyrir í þessu máli,“ segir Haukur.

Aðalmeðferð málsins verður framhaldið í dag í Héraðsdómi Reykjaness og fyrirhugað er að taka skýrslu af starfsmanni Tesla í gegnum síma, til að staðfesta gildi gagnanna, hvernig vinnslu þeirra var háttað og þess háttar. Ekki liggur fyrir hvort af því verður vegna ágreinings um vitnaskyldu viðkomandi og gildi upplýsinganna fyrir málið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×