Erlent

Rússar sverja af sér geislavirk efni sem lagði yfir Evrópu

Kjartan Kjartansson skrifar
Geislavarnir Frakklands greindu óvenjulegt magn geislavirks efnis í byrjun nóvember.
Geislavarnir Frakklands greindu óvenjulegt magn geislavirks efnis í byrjun nóvember. Vísir/AFP
Ekkert kjarnorkuslys hefur átt sér stað á yfirráðasvæði Rússa þrátt fyrir að sérstaklega há gildi geislavirkrar samsætu hafi fundist í Úralfjöllum. Þetta fullyrða rússnesk stjórnvöld. Geislavirk efni fundust í Evrópu fyrr í þessum mánuði sem talið er að hafi borist frá annað hvort Rússlandi eða Kasakstan.

Kasakar hafa einnig neitað því að uppruni efnanna sé þar. Báðar þjóðir fullyrða að ekkert óvenjulegt hafi átt sér stað í kjarnorkuverum þeirra. Veðurstofa Rússlands viðurkennir þó að í Úralfjöllum hafi styrkur geislavirka efnisins rúþeníums-106 mælst þúsundfalt meiri en eðlilegt getur talist.

Geislavarna- og kjarnorkuöryggisstofnun Frakklands greindi frá því að samsætan hefði greinst þar í landi 9. nóvember. Líklegast var talið að hún hefði borist þangað frá öðru hvoru austantjaldsríkjanna, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Ein mælistöðin í Úralfjöllum þar sem styrkur geislavirka efnisins mældist mikill er nærri Mayak-kjarnorkuendurvinnsluverinu sem er í eigu rússneska ríkisins. Meiriháttar kjarnorkuslys átti sér stað í verinu árið 1957.

Forsvarsmenn versins neitað því hins vegar að geislamengunin hafi borist þaðan.

BBC segir að rúþeníum-106 verði aðeins til þegar frumeindir eru klofnar. Efnið sé stunum notað í læknisfræðilegum tilgangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×