Innlent

Vill sem minnst segja um frétt af málefnasamningi nýrrar ríkisstjórnar

Birgir Olgeirsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. Vísir/Anton Brink
„Ég ætla ekki að gefa neitt upp um það hvað er í gangi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, spurður hvort verðandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks ætli að hækka fjármagnstekjuskatt.

Kjarninn birti frétt fyrir skömmu þar sem fullyrt er að kveðið sé á um hækkun fjármagnstekjuskatts í stjórnarsáttmála flokkanna þriggja. Þar segir einnig að hvítbók verði skrifuð um endurskipulagningu fjármálakerfisins, fæðingarorlof lengt, komu og brottfaragjöld verði lögð á og að gistináttagjald muni renna óskert til sveitarfélaga.

Kjarninn hefur þetta eftir heimildum en í fréttinni segir að skipaðar verði þverpólitískar nefndir um endurskoðun á stjórnarskrá og og um hvort þurfti að endurskoða útlendingalögin.

Innihald stjórnarsáttmálans var kynntur fyrir þingflokkum Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknar í gær í frétt Vísis um þá fundi kom fram að sáttmálinn verði ekki fullkomlega tilbúinn fyrr en á lokametrum myndun ríkisstjórnar flokkanna þriggja. 

Sigurður Ingi sagði í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í gær að stefnt væri að því að flokksstofnanir flokkanna þriggja muni funda á miðvikudagskvöld, en þær þurfa að samþykkja málefnasamninginn svo af ríkisstjórnarsamstarfinu verði.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.