Varamaðurinn tryggði Svíum sigur á Ítölum með sinni fyrstu snertingu | Sjáið sigurmarkið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Svíar fara með eins marks forskot í seinni leikinn á móti Ítalíu í umspili um sæti á heimsmeistaramótinu í Rússlandi næsta sumar.

Svíar unnu fyrri leikinn 1-0 á Friends Arena í Stokkhólmi í kvöld en seinni leikurinn verður eftir helgi.

Jakob Johansson var hetja Svía í leiknum en hann skoraði sigurmarkið á 61. mínútu. Hann var þá nýkominn inná sem varamaður og skoraði með sinni fyrstu snertingu.

Boltinn barst til Johansson eftir langt innkast og hann hafði heppnina með sér því boltinn hafði viðkomu í Ítalanum Daniele de Rossi og breytti um stefnu. Gianluigi Buffon átti því enga möguleika í marki Ítala.

Svíarnir skoruðu sigurmarkið á tímapunkti í leiknum þegar Ítalirnir voru algjörlega að missa sig í leikaraskap út um allan völl.

Rétt á eftir að Svíar skoruðu átti Matteo Darmian þrumuskot í stöngina en ítalska liðið náði ekki að jafna metin og heimamenn fögnuðu mikilvægum sigri.

Seinni leikur liðanna fer fram í Mílanó á mánudagskvöldið en Svíar eru í ágætum málum fyrir seinni leikinn þar sem Ítalir þurfa að sækja sigur.

Það er hægt að sjá svipmyndir frá leiknum í spilaranum hér fyrir ofan.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira