Þannig sé það nú til skoðunar hjá Vinstri grænum hvort einhver flötur sé á samstarfi með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki en þau samtöl séu enn á óformlegu stigi. Undanfarna dagi hafi í raun allir verið að tala við alla.
„Það liggur líka fyrir að þau mál hafa skýrst að við höfum til að mynda átt í samtölum við Samfylkinguna að skoða samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkingin hefur hafnað því. Þannig að við erum þá að horfa á það hvort að það sé einhver flötur á að ræða þá við Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk. Allt er þetta á þessu óformlega stigi þannig að í raun heldur það bara áfram,“ sagði Katrín eftir þingflokksfund VG í morgun.
Varðandi óformlegar viðræður flokksins við Framsókn og Sjálfstæðisflokk sagði Katrín:
„Staðan á því máli er í raun og veru sú að við erum að eiga samtöl. Þau samtöl munu halda áfram í dag, það er ekki komið á neitt stig formlegra viðræðna heldur eru bara forsvarsmenn þessara flokka að tala saman.“
Þá væru þær óformlegu viðræður ekki komnar á það stig að flokkarnir séu farnir að raða upp þeim málefnum sem þeir gætu sameinast um. Katrín sagðist jafnframt ekki eiga von á því að einhver af flokksformönnunum þremur fari á fund forseta Íslands á Bessastöðum í dag.
Greint var frá því fyrr í dag að Samfylkingin, Píratar og Viðreisn hafi fundað í morgun og rætt möguleika á samstarfi bæði í ríkisstjórn og stjórnarandstöðu. Píratar og Samfylking vilja hefja stjórnarmyndunarviðræður að nýju við Vinstri græn og Framsóknarflokk og taka Viðreisn nú með í þær viðræður.
Þannig er kominn annar valkostur fyrir Katrínu og Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, og þá vinstra megin við miðju.