Erlent

Flynn segir ásakanirnar vera fáránlegar

Atli Ísleifsson skrifar
Michael Flynn sagði af sér eftir tæpan mánuð í starfi þjóðaröryggsráðgjafa Bandaríkjaforseta.
Michael Flynn sagði af sér eftir tæpan mánuð í starfi þjóðaröryggsráðgjafa Bandaríkjaforseta. Vísir/afp
Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta, hefur hafnað því að hafa ætlað sér láta ræna tyrkneska klerknum Fetullah Gülen og fá hann framseldan til Tyrklands gegn greiðslu. BBC greinir frá þessu.

Wall Street Journal og NBC News hafði það eftir ónafngreindum heimildarmönnum sínum í gær að saksóknarinn Robert Mueller væri með Flynn og son hans Michael Flynn yngri, til rannsóknar vegna málsins.

Robert Kelner, lögmaður Flynn, segir ásakanirnar um að Flynn-feðgarnir hafi átt fund með fulltrúum Tyrklandsstjórnar vera fáránlegar.

Tyrklandsstjórn sakar Gülen um að vera höfuðpaurinn í misheppnaðri valdaránstilraun í landinu sumarið 2016. Gülen hefur verið í sjálfskipaðri útlegð í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum síðustu árin og vilja tyrknesk yfirvöld fá hann framseldan.

Flynn var ráðgjafi Trump í kosningabaráttunni 2016 og var síðar skipaður þjóðaröryggisráðgjafi. Hann var rekinn eftir að hafa logið til um samskipti sín við sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.

Mueller fer fyrir rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar FBI á afskiptum Rússa að bandarísku forsetakosningunum og mögulegu samráði þeirra við framboð Donald Trump. Mueller var settur yfir rannsóknina eftir að Trump rak James Comey úr starfi forstjóra FBI í maí.

Mueller getur í rannsókn sinni ákært hvern sem er í starfsliði Trump telji hann ástæðu til, þar á meðal Trump sjálfan. Sömuleiðis getur hann ákært menn fyrir önnur brot sem ekki tengjast samráði við Rússa en sem kunna að koma upp á yfirborðið við rannsókn málsins.


Tengdar fréttir

Rannsaka þátt Flynn í meintri áætlun um að ræna Gülen

Robert Mueller rannsakar nú hvort að fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafinn Michael Flynn hafi átt einhverja aðild að meintri áætlun um að ræna tyrkneska klerknum Fethullah Gülen og framselja hann til Tyrklands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×