Erlent

Ólympíueldurinn tendraður í Grikklandi

Atli Ísleifsson skrifar
Suður-kóreski knattspyrnumaðurinn Ji-sung Park var í Grikklandi í morgun.
Suður-kóreski knattspyrnumaðurinn Ji-sung Park var í Grikklandi í morgun. Vísir/AFP
Ólympíueldurinn var tendraður í Ólympíu í Grikklandi í morgun. Hans bíður nú 2.129 kílómetra ferðalag til Suður-Kóreu þar sem Vetrarólympíuleikarnir fara fram dagana 8. til 25. febrúar næstkomandi.

Gríski gönguskíðakappinn Apostolos Angelis var fyrstur til að hlaupa með eldinn og suður-kóreski knattspyrnumaðurinn Ji-sung Park næstur. Búist er við að eldurinn nái Akrópólishæð í Aþenu á mánudag.

Angelis segir það vera mikinn heiður að hafa verið valinn til að fara fyrstur með eldinn þennan fyrsta legg leiðarinnar.

Ólympíuleikarnir fara fram í Pyeongchang í norðausturhluta Suður-Kóreu.

Miðasala á leikana hefur ekki gengið vel það sem af er og er einungis búið að selja um 30 prósent af þeim miðum sem til sölu eru í Suður-Kóreu og um helming þeirra miða sem eru til sölu á alþjóðavísu.

Lee Hee-Beom, einn skipuleggjenda leikanna, segist þó ekki hafa áhyggjur af dræmdri miðasölu. Segir hann Suður-Kóreumenn þekkta fyrir það að taka ákvarðanir á síðustu stundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×