Fótbolti

Jón Daði: Frábært að hjálpa okkur að taka skref í átt að HM

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson, maður leiksins gegn Tyrkjum í kvöld, var eðlilega ánægður en hélt sig á jörðinni í samtali við Vísi í leikslok. Selfyssingurinn var ánægður með sinn leik.

„Ég er bara í núllinu. Það er er einn leikur eftir og maður er strax farinn að hugsa um hann,” sagði Jón Daði í kvöld.

„Auðvitað er frábært að vinna Tyrki 3-0 á útivelli. Það koma ekkert mörg lið hingað og sækja þrjú stig, hvað þá 3-0. Frábært.”

„Við vissum að pressan væri mest á þeim. Þeir urðu að vinna, við þurftum að vinna líka, en þeir á heimavelli og kröfur stuðningsmanna þeirra eru miklar á þá að vinna þennan leik.”

„Ef hlutirnir ganga ekki upp þá fara stuðningsmenn að púa á þá og sýna þannig að þeir séu ekki sáttir. Það hjálpaði okkur og mér fannst við klókir að stjórna tímanum og halda boltanum. Mér fannst skipulagið vera tipp-topp í dag.”

Jón Daði var frábær í kvöld; hann lagði upp tvö mörk, var sívinnandi og eðlilega var hann maður leiksins að mati Vísis í leikslok. Hann var ánægður með sinn leik.

„Það er mikilvægt að þegar mörkin eru ekki til staðar að sýna aðra hluti og ég veit að það er mikið í mínum leik annað en mörk. Það er frábært að eiga þennan fína leik í dag og hjálpa okkur að taka annað skref í átt að HM.”

Einn leikur er eftir í riðlinum og það er gegn Kósóvó hér heima á mánudag. Sigri Ísland hann fer liðið á HM 2018 í Rússlandi. Jón Daði var sammála að eitt verkefni væri eftir:

„Það er bara þannig. Þetta er mjög spennandi og það er mikilvægt að núllstilla okkur strax. Það er langt flug framundan og það er mikilvægt að menn næri sig vel og endurheimti sem fyrst. Síðan stefnum við á toppleik heima,” sagði Jón Daði að lokum.


Tengdar fréttir

Einkunnir eftir sigurinn í Tyrklandi: Jón Daði maður leiksins

Ísland vann stórbrotinn sigur á Tyrklandi í kvöld, en leiknum lauk með 3-0 sigri Íslands. Jóhann Berg Guðmundsson, Birkir Bjarnason og Kári Árnason skoruðu mörk Íslands og liðið hefur því tryggt sér að minnsta kosti umspilssæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×