Erlent

Niðurstöður kosninga um sjálfstæði verði gerðar ógildar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Haider al-Abadi krefst ógildingar kosninga Kúrda. Fréttablaðið/EPA
Haider al-Abadi krefst ógildingar kosninga Kúrda. Fréttablaðið/EPA
Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, fór í gær fram á að yfirvöld í Íraska Kúrdistan ógiltu niðurstöður nýafstaðinna kosninga um sjálfstæði svæðisins. Kosið var á mánudag og greiddu 92 prósent kjósenda með því að lýsa yfir sjálfstæði en kjörsókn var rúm sjötíu prósent.

Írakar, sem og alþjóðasamfélagið, hafa gagnrýnt kosningarnar harðlega. Krafðist íraska ríkisstjórnin þess að þær yrðu ekki haldnar og lýsti þær ólöglegar.

Al-Abadi sagði í gær að hann myndi „aldrei nokkurn tímann ræða niðurstöðuna“ við yfirvöld á svæðinu og kallaði eftir því að Kúrdar hæfu viðræður á hátt sem stenst stjórnarskrá landsins.

Kúrdar hafa áður sagt að jákvæð útkoma kosninganna myndi ekki þýða tafarlausa sjálfstæðisyfirlýsingu. Hún myndi fremur veita umboð til að hefja viðræður við Íraksstjórn og nærliggjandi ríki um sjálfstæði.

„Ef þau vilja hefja viðræður verða þau að ógilda niðurstöður kosninganna sem og kosningarnar sjálfar,“ sagði al-Abadi. Enn fremur sagði hann forgangsmál sitt nú vera að vernda íbúa ríkisins og lofaði hann því að verja Kúrda gegn hvaða árásum sem er.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×